139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[12:10]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það eru þeir sem áttu frumkvæðið að málinu, þeir sem samþykktu það á þinginu og keyrðu það í gegn og sáu um framkvæmdina sem þurfa að horfast í augu við sína ábyrgð. (Gripið fram í: Að sjálfsögðu.) En hv. þingmaður kallar eftir því að Sjálfstæðisflokkurinn svari því hver ábyrgð hans er í málinu. Hv. þingmaður er algjörlega úti á túni í þessari umræðu.

Sjálfstæðisflokkurinn er með skýra stefnu um það hvernig eigi að standa að endurskoðun stjórnarskrárinnar. Hún hefur ekkert breyst. Ég treysti þinginu vel til að rísa undir þessu hlutverki sínu. Ég lýsi mig reiðubúinn til að taka þátt í því starfi, en þegar þjóðin spyr hvernig eigi að bregðast við niðurstöðu Hæstaréttar, hvað eigi að gera eftir að kosningin varð ógild, koma engin svör. Eins og mátti heyra hjá hv. þingmanni kemur ýmislegt til greina og allt verður upp í loft. Það er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar að allt er upp í loft og það er á ábyrgð meiri hlutans á þinginu að allt er upp í loft.

Þjóðin kallar eftir skýrum svörum og ákveðinni stefnu og hana fær hún ekki hjá ríkisstjórninni og heldur ekki í málflutningi hv. þingmanns (Forseti hringir.) sem er gersamlega ráðalaus í þessari stöðu. (Gripið fram í.)