139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[12:12]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Í upphafi máls míns þakka ég hæstv. innanríkisráðherra fyrir skýrslu hans hér í þinginu. Ég fullvissa hann um að í þessu máli og því verkefni sem fram undan er nýtur hann mikils stuðnings stjórnarmeirihlutans sem stendur sameinaður og samhentur að baki honum í því. Sú staða sem upp er komin minnir okkur á verkefni sem við erum að takast á við í þessum stjórnarmeirihluta.

Í stjórnlagaþinginu fólst að við ætluðum að taka til endurskoðunar grunngerðir samfélagsins, skoða þrískiptingu valdsins, löggjafarvalds, framkvæmdarvalds og dómsvalds, skoða réttindi almennings til aukinnar þátttöku í stjórn landsins, lýðræðisþátttöku almennings, skoða sjálfstæði dómstólanna og samskipti okkar við útlönd.

Þessi staða minnir okkur líka á það að við erum núna í ríkisstjórn hinna stóru breytinga. Við erum að takast á við risavaxin verkefni á sviði fiskveiðistjórnar, á sviði samskipta okkar við Evrópusambandið og líka þegar kemur að endurskoðun stjórnarskrárinnar.

Þetta er þörf áminning fyrir okkur á þessum tímapunkti vegna þess að við erum stödd í miðju endurreisnarstarfi og því miður fórum við út af sporinu og gerðum mistök. Kallað er eftir ábyrgð í málinu og þeir kalla mjög hátt eftir ábyrgð í málinu sem sjálfir hafa verið krafðir um að axla ábyrgð, jafnvel af flokksmönnum úr sínum eigin ranni.

Ég skirrist ekki við það persónulega, sem þingmaður og sem formaður allsherjarnefndar, að finna til ábyrgðar gagnvart því sem úrskeiðis fór. Ef ég skoða gaumgæfilega hvað fór úrskeiðis í lagasetningu okkar er það fyrst og fremst, miðað við dóm Hæstaréttar, númerun atkvæðaseðlanna sem við ákváðum að ósk landskjörstjórnar. Það tekur ekki ábyrgðina af okkur sem stóðum að lagasetningunni. Við studdum okkur hins vegar við álit sérfræðinga í málinu, fórum að óskum landskjörstjórnar. Við breyttum lögunum að þessu leyti og gerðum líka breytingar varðandi atkvæðaseðilinn. Það breytir því ekki að ábyrgðin er okkar, stjórnarmeirihlutans, þeirra sem samþykktu frumvarpið, þeirra fjögurra flokka sem komu að því að setja þessa löggjöf í gegn.

Ég finn fyrir mitt leyti til ábyrgðar út af þeim fjármunum sem fóru í súginn í þessu efni. Mér finnst ég skulda þjóðinni afsökunarbeiðni og ég biðst hér með afsökunar á mínum þætti í þessu máli. Ég er líka tilbúinn til þess að mæta kjósendum mínum með þetta mál á ferilskránni. Ég er tilbúinn til þess að axla mína ábyrgð í frjálsum og opnum kosningum með þetta mál á ferilskránni þar sem ég veit hvaða markmið liggja hér að baki og hversu risavaxið verkefni er fram undan í þessum efnum.

Ég mótmæli því sem fram hefur komið í málflutningi hv. stjórnarandstöðuþingmanna í málinu, sér í lagi þingmanna Sjálfstæðisflokksins, að ekki hafi farið fram vönduð vinna við þessa lagasetningu, að einhver sérstök flýtimeðferð hafi verið í gangi. Það er alrangt og það vita þeir sem halda því fram, það vita þeir hv. þingmenn sem tóku þátt í starfinu á vegum allsherjarnefndar. Þessar fullyrðingar eru bara hluti af einhverjum pólitískum leik og við eigum að vita að það er kominn tími til að hætta þeim leik á þessu landi.

Í nánast tvö ár hefur verið til umfjöllunar á þinginu að efna til stjórnlagaþings. Á dögum minnihlutastjórnarinnar, með stuðningi Framsóknarflokksins, var það eitt af skilyrðum Framsóknarflokksins að efnt yrði til bindandi stjórnlagaþings með, ef ég man rétt, 63 fulltrúum sem ættu að sitja í heilt ár. Fulltrúi þess flokks kemur nú hingað upp og fer hamförum út af kostnaðinum sem við verðum fyrir í þessu máli. Hann er vissulega mikill en hann hefði orðið miklu meiri ef við hefðum farið að ráði Framsóknarflokksins á þeim tíma.

Þetta er vissulega mikill kostnaður en hann er ekki þannig að við þurfum að endurtaka allt ferlið ef við ráðumst að nýju í það að efna til stjórnlagaþings. Og það ætlum við að gera. Mikið af þeirri vinnu sem unnin hefur verið mun nýtast okkur í því verkefni. Við höfum þegar farið að óskum Sjálfstæðisflokksins í málinu og efnt til þjóðfundar. Við höfum þegar farið að óskum Sjálfstæðisflokksins og boðað til stjórnlaganefndar. Sú vinna er öll fyrir hendi og ónýtist ekki. Við höfum þegar undirbúið framkvæmd kosningarinnar. Við höfum þegar fundið húsnæði. Og eins og einn af stjórnlagaþingsmönnunum sagði í sjónvarpsfréttum fyrir ekki nema tveimur dögum liggur í sjálfu sér ekkert á. Er ég þar að vitna til orða Ómars Ragnarssonar sem kosinn var á þetta þing. Í sjálfu sér liggur ekkert á, okkur vantar ekki nýja stjórnarskrá í næsta mánuði eða þarnæsta eða í september. Við getum vandað okkur við það sem fram undan er.

En það sem Sjálfstæðisflokkurinn er að gera í þessu máli, sýnist mér persónulega, er að sanna fyrir þjóðinni að hann sé ófær um að taka við stjórn landsins. Hann fer fullkomlega á límingunum í þessu máli. Hann hefur ekki stjórn á sér og hann getur ekki hagað málflutningi sínum öðruvísi en að svo virðist sem hann hafi unnið í lottóinu, því miður. Hvað hafa hv. formenn þessa fornfræga flokks, Sjálfstæðisflokksins, sagt um Hæstarétt Íslands í gegnum tíðina? Minni ég þar á dóma um fiskveiðilöggjöfina. Hafa þeir talað af fullkominni virðingu um Hæstarétt? Ég man ekki betur en að virðulegir landsfeður hafi haldið því fram að þjóðin þyrfti öll að flytja til Kanaríeyja ef Hæstiréttur felldi dóma á tiltekinn hátt. Svo fara menn mikinn um það að menn ræði forsendur ákveðinnar niðurstöðu, (Gripið fram í.) segja það óvirðingu við Hæstarétt. Sjálfstæðisflokkurinn er að sýna að það er ástæða fyrir því að hann er í stjórnarandstöðu og hann er að sýna að við eigum að tryggja það hér, sem stöndum sameinuð um þetta verkefni í þinginu, að hann verði áfram í stjórnarandstöðu (Gripið fram í: Nei.) á meðan hann rís ekki undir ábyrgð og sýnir að hann geti með yfirvegun, rólega og skynsamlega, farið yfir það sem úrskeiðis hefur farið í þessu máli og lagfært það.