139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[12:21]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er algjör rökleysa hjá hv. þingmanni að þar sem Sjálfstæðisflokkurinn styðji ekki málið sé hann þess ekki umkominn að gagnrýna framkvæmdina og þá stöðu sem upp er komin. Það er ekkert sem hindrar okkur í því að hafa skoðun á helstu málum stjórnarmeirihlutans, það er þvert á móti hlutverk okkar og skylda. Það er það sem við erum fyrst og fremst að gera hér, að hafa skoðun á því sem meiri hluti þingsins vill gera og hrindir í framkvæmd.

Hér hefur eitt mál, nokkuð umdeilt, algjörlega farið úrskeiðis og við gagnrýnum það. Við erum ekkert dæmd úr leik þó að við styðjum ekki málið. Við erum einfaldlega að benda á það sem blasir við allri þjóðinni, að eitthvað gríðarlega mikið fór úrskeiðis. Ríkisstjórnin hefur klúðrað máli og við köllum eftir ábyrgðinni, það er það sem við erum að gera. Getur hv. þingmaður kannski ekki borið virðingu fyrir því á hinu háa Alþingi að menn séu stundum ósammála? Eru menn dæmdir úr leik í umræðunni ef þeir eru ekki sammála stjórnarmeirihlutanum?