139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[12:26]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi kostnaðinn sérstaklega held ég að bæði ég og hv. þm. Róbert Marshall gerum okkur grein fyrir því á þessari stundu að kostnaðurinn við stjórnlagaþingið getur orðið allt að helmingi hærri en gert var ráð fyrir miðað við þær tölur fjárlaganefndar sem kynntar voru fyrir allsherjarnefnd í fyrrasumar. Eitthvað af þeim kostnaði fellur til út af þjóðfundinum sem við vorum að ræða en það er hins vegar aðeins brot af kostnaðinum. Við skulum samt ræða kostnaðinn seinna. Í mínum huga snýst málið nú um það, eftir að hafa hlustað á ræðu hv. þm. Róberts Marshalls, hvort einhver rökhugsun sé yfir höfuð í því að við sjálfstæðismenn, sem vissulega lögðumst gegn þessu verkefni öllu frá A til Ö, eigum núna að taka á okkur skömmina fyrir það að ríkisstjórnin hafi komið þessu sérstaka áhugamáli sínu hér í gegn.