139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[12:32]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég svara þessari spurningu hv. þingmanns neitandi. Ég tel enga ástæðu til að boða til alþingiskosninga á þessu augnabliki. Ég hef bent á þær leiðir sem standa til boða í stöðunni. Það er líka einfaldlega svo að við höfum góðan tíma, það er enginn tímafrestur eða einhver dagsetning sem við þurfum að horfa til þannig að við getum farið vandað yfir málin.

Ég hlustaði af mikilli athygli á ræðu hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar fyrir tveimur dögum um forsendur málsins alls og hvernig við ættum að taka það allt til endurskoðunar. Það er djúp sannfæring mín að við eigum að halda stjórnlagaþingið en það er full ástæða til að skoða alla þætti málsins. Ég tel að þeir stjórnmálaflokkar sem hafa haft það á stefnuskrá sinni að endurskoða stjórnarskrána eigi að koma að málinu. Við höfum rými til að gera það, það eru nokkrar leiðir og nokkrir valkostir í stöðunni og ég hef einfaldlega bent á þá.