139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[12:33]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrir áeggjan Sjálfstæðisflokksins varð Ísland sjálfstætt 1944. Það var grunnástæðan fyrir því að Ísland varð sjálfstætt. Ekkert hefur breyst í þeim efnum, ekkert. Rignt hefur í flekkinn af og til síðan eins og gengur í lífinu en grunntónninn er sá sami. Það er viðmiðunin.

Undanfarna mánuði, missiri og ár hefur verið endalaus doði og aftur doði í samfélaginu, kyrrstaða og biðstaða vegna stjórnleysis. Það er tjaldað á því að þjóðin vilji, hún vilji. Auðvitað eigum við að tala um það í fullri alvöru en þjóðin tók lítinn þátt í kosningu um stjórnlagaþing. Líklega verður helmingi minni þátttaka ef hún verður endurtekin. Ég hef í sjálfu sér ekkert á móti þessari hugmynd en hún gekk ekki upp. Hún gekk ekki upp eins og væntingar stóðu til. (Forseti hringir.) Þess vegna vil ég spyrja hvort (Forseti hringir.) hv. þingmanni finnist eðlilegt að setja þetta í forgang eins og staðan er í þjóðfélaginu.