139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[12:35]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Hv. þingmaður miðaði auðvitað við þá, virðulegi forseti, sem höfðu kosningarrétt. Það höfðu ekki allir þegnar þjóðfélagsins kosningarrétt þá.

Staðan er vandasöm, það er engin spurning. Það er líka spurning hvort ríkisstjórnin eigi ekki að skipa þingmönnum til leiks til að fara í þetta mál og kalla til hóp sérfræðinga til samstarfs eða ráðgjafar við 25-menningana. Það eru margir möguleikar í stöðunni til að leysa málin en þingið hefur síðasta orðið og þingið á auðvitað að taka þátt í þessum grunni af fullri alvöru og einurð.

Það gengur ekki að eyða endalausum tíma í þessa umræðu þegar fólk bíður (Forseti hringir.) eftir að fá slagkraftinn í gang í samfélaginu, koma atvinnulífinu í gang, styrkja heimilin, skapa bjartsýni og (Forseti hringir.) leikgleði. Þá verða menn að forgangsraða. Þetta er ekki, eins og hv. þingmaður hefur sagt, forgangsmál í stöðunni í dag.