139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[12:51]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er nú svolítið hugsi eftir ræðu hv. þingmanns. (Gripið fram í.) Ég hef staðið í þeirri meiningu hingað til að það væri samkomulag allra flokka hér á Alþingi nema Sjálfstæðisflokksins að stefna að því að setja á fót stjórnlagaþing til að endurskoða stjórnarskrána. Mér fannst í ræðu hv. þingmanns að kannski væri ekki svo lengur, en hins vegar — ég veit að ég á ekki að vitna til annarra andsvara, en af því það hefur nú komið fram — skildist mér nú á honum hér síðast að það væri ekki það að Framsóknarflokkurinn styddi það ekki áfram að stjórnlagaþing yrði haldið, heldur að við skyldum byrja frá grunni og athuga löggjöfina að baki þinginu. Það varð nokkur umræða í mínum flokki eftir ræðu sem hv. þingmaður hélt hér í fyrradag, held ég, þar sem einhver vafi lék líka á því hvað hann væri að segja. Ég vildi skilja hann á þann veg að hann vildi fara í löggjöfina alla en ekki í það prinsipp að við ætluðum að halda stjórnlagaþing á þessu kjörtímabili.