139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[12:53]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að ég hafi áttað mig á því út á hvað andsvar hv. þingmanns gekk í lokin. Það var sem sagt ekki ásökun um það að ég væri ekki hreintrúaður í stefnunni, í því að verja lýðræðið á hinn eina rétta hátt, ég vona að það hafi ekki verið meiningin í andsvarinu, heldur hitt, sem mér fannst vera skýrt í lokin, að ég vildi velta fyrir mér þeim hliðum málsins sem þyrfti að taka á og læra af þeirri reynslu sem við höfum gengið í gegnum á síðustu mánuðum, meira en hálfu ári, til þess að geta síðan fundið bestu hugsanlegu leið til að laga stjórnarskrána, til að mynda með stjórnlagaþingi sem mundi, bæði hvað varðar kosningu til þess og starf, verða betur til þess fallið að bæta stjórnarskrána en það þing sem við höfum nú slegið af.

Hv. þingmaður leiðréttir mig ef þetta var ekki réttur skilningur en hafi þetta verið réttur skilningur er það alveg rétt — við skulum gefa okkur tíma til þess að fara yfir málið, læra af reynslunni og sjá hvernig við gerum þetta best.