139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[13:11]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir skýrslu sem hann gaf í upphafi þessarar umræðu um framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings.

Nú hefur Hæstiréttur tekið ákvörðun um það að kosning til stjórnlagaþings sem fór fram 27. nóvember sl. sé ógild. Hann gerir það á tilteknum forsendum sem hann rekur í ákvörðun sinni. Ég tek undir með hæstv. innanríkisráðherra, sú ákvörðun sem Hæstiréttur hefur tekið stendur, hún er sú niðurstaða sem mælt er fyrir um í lögum, þ.e. að Hæstiréttur taki til ákvörðunar kæruefni sem kunna að lúta að framkvæmd kosningarinnar. Þetta er niðurstaða Hæstaréttar. Um hana verður ekki deilt en það þýðir að sjálfsögðu ekki að menn geti ekki haft alls konar skoðanir á þeim forsendum sem liggja að baki. Frá mínum bæjardyrum séð eru þær forsendur ekki í öllu tilliti vel rökstuddar og sérstaklega finnst mér umhugsunarefni að Hæstiréttur skuli ekki, þar sem hann á mörgum stöðum vísar í hin almennu kosningalög, byggja á 3. mgr. 120. gr. laga um kosningar til Alþingis sem kveður á um að kosninguna skuli ógilda ef ætla megi að þeir gallar sem á henni eru hafi haft áhrif á niðurstöðuna. Hæstiréttur færir engin rök fyrir því að svo sé þannig að ég tel að þessi niðurstaða sé ekki yfir gagnrýni hafin og að sjálfsögðu eiga menn að leyfa sér að gagnrýna þær forsendur þó að menn uni niðurstöðunni. Það er bara annar handleggur.

Það er ekki nýmæli að í samfélaginu séu alls konar skoðanir á niðurstöðum Hæstaréttar í hinum ýmsum málum. Þegar hefur verið vakið máls á dómi Hæstaréttar í fiskveiðistjórnarmáli sem var umdeilt. Það eru dæmi um niðurstöður Hæstaréttar í t.d. kynferðisafbrotamálum sem oft vekja hörð viðbrögð í samfélaginu. Það er ekki einsdæmi að niðurstöður Hæstaréttar séu umdeildar þó að við unum þeim vitaskuld eins og réttarkerfi okkar er uppbyggt. Ég vil að þetta komi skýrt fram.

Síðan vil ég segja að menn geta að sjálfsögðu reynt að leiða hér fram þá sem bera ábyrgð á þessu. Ég tek undir með formanni allsherjarnefndar þegar hann rekur þátt nefndarinnar. Ég átti sæti þar og tók þátt í störfum hennar á þessum tíma og biðst eins og hann afsökunar á þeim þætti sem við eigum í þessu máli. En aðalmálið núna er að taka ákvörðun um framhaldið, taka afstöðu til þess hvort við viljum að hér verði stjórnlagaþing sem fjallar um þau álitamál stjórnarskrárinnar sem við ætlumst til að verði endurskoðuð og hvaða leið sé þá fær. Þar á að sjálfsögðu að kalla alla að borði og fara rækilega yfir málið. Í mínum huga er einfaldasta leiðin sú að endurtaka kosninguna, en við þurfum að sjálfsögðu að fara rækilega yfir það með hvaða hætti það er gert og hvenær og hvort (Forseti hringir.) allir geti við það unað.