139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[13:21]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum nú skýrslu hæstv. innanríkisráðherra varðandi stjórnlagaþingið, í gær ræddum við skýrslu hæstv. forsætisráðherra. Ég vil segja, þrátt fyrir að vera örlítið undrandi á tóninum í ræðu hæstv. innanríkisráðherra, að hún var öllu mildari en ræða hæstv. forsætisráðherra í gær.

Ég verð að koma því að, frú forseti, að ég var nokkuð undrandi yfir þeirri nálgun hverjir bæru ábyrgð á þessari niðurstöðu, að draga Hæstarétt og sveitarfélögin inn á þann lista. Mér fannst það ekki alveg sanngjarnt. En að öðru leyti get ég verið sammála upptalningu hæstv. ráðherra og því hvernig hann nálgaðist málið.

Að mínu viti er mikilvægt fyrir Alþingi á þessari stundu að fara yfirvegað yfir þetta stóra og merkilega mál og meta þá kosti sem eru í boði, þeir kunna að vera nokkrir. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram hjá nokkrum hv. þingmönnum, þar á meðal formanni Framsóknarflokksins, að menn eigi að gefa sér tíma til að fara yfir málið, ekki vera með óðagot. Mér líst einhvern veginn ekki á að umræðan um þetta mál verði í þeim anda sem hefur verið því að ég held að hún spilli fyrir framhaldinu, hvernig sem það verður á endanum.

Það eru örugglega margar leiðir í málinu. Það má samt ekki verða til þess að önnur mikilvæg mál bíði, þótt ég nefni ekki það sem allir vita, blessað Icesave-málið sem kemur aftur, þá vil ég að sjálfsögðu að þingmenn ræði áfram málefni heimila og fyrirtækja og atvinnulífsins og slíkt. Hættan er sú að ef þingið tekur ekki af skarið og vinnur skipulega við að greiða úr þessari uppákomu vegna stjórnlagaþingsins þá held ég að þingið eigi eftir að taka á sig svip sem ekki verður góður. Ég hvet því menn endilega til að íhuga það vandlega að gefa sér tíma í þetta. Ég held að í rauninni liggi ekkert á.

Svo má líka hugsa til þess, frú forseti, úr því að einn kosturinn er að efna til nýrra kosninga að mælt hefur verið fyrir frumvörpum og þingsályktunartillögum sem gera ráð fyrir að þjóðaratkvæðagreiðslur fari fram. Það er því alveg spurning hvort ekki eigi að ræða málið í því samhengi. Ef vilji er í þinginu til að efna til þjóðaratkvæðagreiðslna um önnur mál og fara aftur í stjórnlagaþingskosningu þá er hægt að sameina það svo að unnt sé að nýta tímann og þann kostnað sem af því hlýst sem allra best.

Frú forseti. Ég vil ítreka að það er mikilvægt að vera ekki með hótanir og heitstrengingar hér hver framan í annan og milli þingflokka og annað, heldur að nálgast málið af yfirvegun.