139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[13:24]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg):

Hæstv. forseti. Nú er okkur vandi á höndum sem sitjum á þingi. Svo ég komi beint að efninu þá sýnist mér að helst séu í stöðunni þrír kostir, sem sé að byrja upp á nýtt það ferli að undirbúa kosningar til stjórnlagaþings, framkvæma þær og halda utan um þinghaldið, í annan stað sé í stöðunni að virkja þá fulltrúa sem kosningu hlutu á stjórnlagaþing og fela þeim umboð Alþingis til að semja drög eða í heild nýja stjórnarskrá eða gera breytingar á þeirri stjórnarskrá sem við höfum og í þriðja lagi sé sá kostur að hætta við allar pælingar um stjórnlagaþing á vegum Alþingis á þessu kjörtímabili.

Hvað varðar fyrsta kostinn, að byrja upp á nýtt, þá verður af því mikill kostnaður, mikil fyrirhöfn og miklar umræður. Það er mjög tímafrekt verk, ekki síst ef það á að búa svo um hnútana að kosningarnar verði óaðfinnanlegar að mati Hæstaréttar. [Kliður í þingsal.] Hingað til höfum við haft það viðmið — get ég fengið þögn hérna? Hingað til höfum við haft það viðmið í sambandi við kosningar á Íslandi að þær séu leynilegar, engum þvingunum sé beitt, vilji kjósenda komi fram og horft í gegnum fingur við minni háttar misfellur. Nú er greinilegt að Hæstiréttur ætlar ekki að sætta sig við slíka framkvæmd kosninga framvegis og meiri vandi verður að framkvæma kosningar á Íslandi hér eftir en hingað til.

Í þriðja lagi er sá kostur að hætta við allt saman og búa við óbreytt ástand. Velja þarf á milli hvað sem líður öllum pólitískum skærum. Sumir upplifa ástandið þannig að hagsmunaaðilar séu að verja þann aðgang sem þeir hafa umfram aðra að auðlindum landsins, aðrir líta svo á að þjóðin eigi óskoraðan rétt til að hafa síðasta orðið um stjórnarskrá sína. Þetta er það verkefni sem við verðum að leysa. Ég held að það væri best fyrir þetta þing að leysa það með sóma.