framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.
Hæstv. forseti. Í upphafi vildi ég koma þeirri skoðun á framfæri að þessari umræðu hér í dag er sniðinn allt of þröngur stakkur. Sá tími sem ætlaður er fyrir umræðurnar og hverjum þingmanni er ætlað að koma sjónarmiðum sínum á framfæri er allt of skammur. Vil ég nota tækifærið og beina því til forseta að taka það til endurskoðunar.
Í öðru lagi vildi ég í tilefni af ákveðnum orðum í ræðu síðasta ræðumanns, hv. þm. Þráins Bertelssonar, taka undir að það eru ákveðnir kostir sem þingið og stjórnvöld standa núna frammi fyrir. Það er auðvitað nauðsynlegt að fara yfir það af yfirvegun. Ég veiti því athygli að af hálfu ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarflokkanna, sem báru auðvitað ábyrgð á þessu máli öðrum fremur, hafa ekki komið fram nein útspil um það hvernig með eigi að fara. Það er kannski eðlilegt í ljósi þess að málið er í miklum ógöngum. Kannski ekki hægt með sanngirni að ætlast til þess að ríkisstjórnin eða hin pólitíska forusta ríkisstjórnarflokkanna komi með tillögur um það nú þegar hvernig eigi með að fara. Það er kannski ekki sanngjarnt af því að þetta mál endaði gersamlega úti í móa. (Gripið fram í.) Algjörlega úti í móa. Ríkisstjórnin hafði þarna forgöngu um mál sem hún lagði mikla áherslu á, hæstv. forsætisráðherra lýsti ítrekað yfir að það væri hið stóra lýðræðisumbótamál þessarar ríkisstjórnar. Það endaði úti í móa. Þannig að það er auðvitað (Gripið fram í.) eðlilegt (Gripið fram í.) að ríkisstjórnin taki sér tíma til að hugsa sig um í þessu máli.
Við höfum rætt svolítið um ábyrgð í dag. Ég verð á þessum tímapunkti að segja að ábyrgðin hlýtur að hvíla þyngst á þeim sem frá upphafi til enda þessa máls hafa farið fyrir því, leitt það og borið ábyrgð á bæði lagasetningu og framkvæmd. Hvar liggur sú ábyrgð? Liggur hún hjá einhverjum sveitarstjórnum? Liggur hún hjá embættismönnum í einhverjum ráðuneytum? Nei, auðvitað liggur hún hjá ríkisstjórninni í landinu, hinni pólitísku forustu ríkisstjórnarinnar í landinu. Getur einhver velkst í vafa um það að höfuðábyrgð á því klúðri, sem ég held að við séum öll sammála um að sé komið upp í málinu, liggur hjá þeim sem hafa forustu, pólitíska forustu bæði fyrir löggjafar- og framkvæmdarvaldinu í landinu, pólitískum leiðtogum ríkisstjórnarflokkanna? Þar liggur ábyrgðin.
Hæstv. forseti. Ég legg til að umræðum (Forseti hringir.) um þetta mál verði haldið áfram og þingmönnum gefinn rýmri tími til að (Forseti hringir.) fara yfir það.