139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[15:04]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég hef áður komið að því að virðulegir forsetar ættu að búa til orðabók fyrir alþingismenn vegna þess að það virðist vera einhver nýlunda komin í það hvaða orðum megi beita í fullri kurteisi úr ræðustól Alþingis. (Gripið fram í: Talaðu …)

Aðstaðan er grafalvarleg í samfélaginu, virðulegi forseti. Við erum hér með viðvarandi atvinnuleysi, með þátttöku embættismanna ríkisstjórnarinnar eru auglýstir hér fundir með evrópskum vinnumiðlunum þar sem fólk er hvatt til þess að sækja um atvinnu úti í heimi, koma sér úr landi ef það getur fengið eitthvað að gera annars staðar. (Gripið fram í.) Afleiðingarnar eru þær að í hverri einustu viku flykkjast fjölskyldur úr landi, vinnufúsar hendur. Svo erum við með mat um það að pólitísk áhætta gagnvart landinu hafi aukist verulega. Mikilvægasti þátturinn sem við stöndum frammi fyrir í viðreisninni er að fá hingað erlenda fjárfestingu, nokkuð sem við getum farið að byggja hér á en það er allt í uppnámi, það treystir okkur enginn orðið á alþjóðavettvangi.

Á sama tíma byggjast hagvaxtarspár okkar á því að við eigum að auka neysluna innan lands. Við hækkum skatta, kjarasamningar eru í uppnámi og vantraust aðila vinnumarkaðarins gagnvart þessari ríkisstjórn er algjört. Fagurgali um réttláta, gagnsæja og opna stjórnsýslu hefur reynst innihaldslaus, verkstjórnin er í molum og stjórnarheimilið logar í illdeilum. Þetta er staðan, virðulegi forseti. Þegar þessi skýri áfellisdómur yfir ríkisstjórninni og ríkisstjórnarflokkum kemur frá Hæstarétti í þessu mikilvæga máli, því máli sem þessi ríkisstjórn hafði sem eitt af sínum aðalmálum, er þetta staðan.

Það er aumt að þurfa að hlusta á hæstv. ráðherra og hv. þingmenn sem á þessu bera auðvitað höfuðábyrgð reyna að firra sig henni. Þeir benda á alla aðra og þar fer hæstv. forsætisráðherra í fararbroddi. Ekki benda á mig, ég hef ekkert með þetta að gera, þetta kemur mér ekki við, ekki frekar en tölvumálið hér úti, sem hún sat á með hæstv. forseta og þagði um gagnvart þingheimi. Það var ekki henni að kenna.

Við þessar aðstæður, virðulegi forseti, er mikilvægt að hv. þingmenn sýni ábyrgð í störfum, að við förum að horfa til þess að endurvinna traust hjá þeirri þjóð sem við erum hér í umboði fyrir. Það gerum við ekki með því að tala um að það þurfi að fara að kjósa annað stjórnlagaþing, að það þurfi að fara að eyða hér hundruðum milljóna ofan á öll þau hundruð milljóna sem búið er að eyða í þetta mál. (ÓÞG: 100 tonn af kvóta.) Þjóðin er ekki að kalla eftir því, þjóðin er ekki að kalla eftir slíku lýðræði. Það er hægt að nálgast faglega umfjöllun um stjórnarskrána og breytingar á henni með aðkomu þjóðarinnar á miklu ódýrari og einfaldari hátt. Það höfum við sjálfstæðismenn lagt til og sýnt fram á.

Ég held að við ættum að fara að snúa okkur að alvöru málsins, virðulegi forseti, hætta því raupi sem hér er og standa við (Forseti hringir.) stóru orðin þannig að þjóðin geti tekið mark á þessu (Forseti hringir.) þingi aftur í framtíðinni.