139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[15:08]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Við erum hér að ræða það að Hæstiréttur Íslands komst að þeirri niðurstöðu að ógilda bæri kosningu á stjórnlagaþing. Þetta er alvarlegt, fyrst og síðast vegna þess að þetta er í fyrsta skipti í sögu lýðveldisins sem slíkt er gert og að því er ég best veit er þetta í fyrsta skipti í sögu lýðræðis vestrænna þjóða sem almennar kosningar eru dæmdar ógildar. Við það verðum við að una. Við verðum hins vegar að velta fyrir okkur hvort og þá hvernig við ætlum að vinna úr þeirri stöðu sem við erum í. Við getum verið hér stóryrt um það hvert og eitt hver ber ábyrgð og hver ber ekki ábyrgð en það leiðir okkur ekki að neinni niðurstöðu í því hvort og hvernig við ætlum að halda stjórnlagaþing.

Það er meirihlutastjórn á Íslandi og hún hefur meiri hluta á þingi. Ef sá meiri hluti kýs að halda sig við það að halda hér stjórnlagaþing fer sá meiri hluti aftur af stað, hann fer yfir lögin, tekur út og lagfærir vankanta og gerir þá hugsanlega betur og krefst þess að til þess að halda stjórnlagaþing þurfi í það minnsta 45–50% kosningarbærra Íslendinga að taka þátt í slíku ef við ætlum að láta það hafa einhverja vísun í sjálfa þjóðina.

Menn hafa talað um að þjóðin vilji þetta og þjóðin vilji hitt. Ég er ekki í sama flokki og þeir aðilar sem þannig tala, en að baki mér sem þingmanns Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi stendur hluti þjóðarinnar. Ég get ekki sætt mig við það sem þingmaður í Suðvesturkjördæmi, stærsta kjördæmi Sjálfstæðisflokksins á landsvísu, með stóran hóp að baki mér að hér segi fólk við mig að ég sé ekki fulltrúi þjóðarinnar, að þjóðin vilji þetta og þjóðin vilji hitt. Ég frábið mér slíkan málflutning, frú forseti, vegna þess að að baki mér sem þingmanns er stór hluti þjóðarinnar.

Ég vil að ríkisstjórnin axli þá ábyrgð sem í því felst að þessar kosningar voru dæmdar ólöglegar. Vilji hún og meiri hluti þingmanna fara af stað með stjórnlagaþing að nýju eiga menn að byrja ferlið frá upphafi og krukka ekki í það til að lagfæra eitthvað til að koma áhugamáli sínu í framkvæmd. Maður hefur ferlið að nýju. Það hefst að nýju frá fyrsta punkti, það verða sett lög, frambjóðendur gefa kost á sér, það verða kosningar og það liggja fyrir úrslit. Öll önnur aðferð, frú forseti, fyrir löggjafarvaldið hér er algjörlega óásættanleg.