139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[15:14]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér skýrslu hæstv. innanríkisráðherra um það mikla skipbrot sem við Íslendingar biðum þegar okkur tókst ekki að halda kosningar. Ég spurði einn hv. þingmann áðan sem er í miklu alþjóðlegu samstarfi hvernig hann útskýrði þetta fyrir útlendingum og hann sagði að „hann hefði tekið Burt á þetta“, eða viljað gera það, og er þá að vísa í sjónvarpsþátt sem við horfðum á fyrir mörgum árum, Löður. Einn karakter í þeim þætti lét sig bara hverfa eða gerði heiðarlega tilraun til þess þegar óþægilegir hlutir komu upp. (Innanrrh.: Þetta er Burt.) Ég heyri að hæstv. innanríkisráðherra er skemmt yfir málinu og það er kannski það alvarlegasta í þessu.

Það að okkur Íslendingum sem stærum okkur af því að vera elsta lýðræðislega þjóð í heimi takist ekki að halda kosningar skammlaust er dapurlegt. Við erum eina vestræna þjóðin, ekki bara í samtímanum heldur yfir alla söguna, þar sem Hæstiréttur hefur neyðst til að ógilda kosningar. Við fengum skýrslu hæstv. innanríkisráðherra sem er ein sérkennilegasta munnlega skýrsla sem ég held að hafi verið flutt á Alþingi.

Virðulegi forseti. Það velkist enginn í vafa um að hæstv. innanríkisráðherra reyndi að gera Hæstarétt tortryggilegan. Hér hafa margir slegið þær trumbur. Hæstv. innanríkisráðherra hefur gert lítið úr því að formsatriðum var ekki fullnægt. Til hvers eru formsatriði? Þau eru til þess að við getum treyst því að kosningar fari rétt fram. Þó að hæstv. innanríkisráðherra hafi mestmegnis talað um Hæstarétt las hann það að vísu upp að það sem þótti ekki ganga samkvæmt dómi Hæstaréttar varðaði ákvarðanir ráðuneytisins, hans eigin ráðuneytis, hvort sem það var við gerð kjörklefa eða að hafa kjörseðla með auðkennum.

Ef menn hafa einhvern áhuga á að meta það hver ber ábyrgð kom það a.m.k. skýrt fram í ræðu hæstv. ráðherra að það er ráðuneyti hans. Ég held samt sem áður, virðulegi forseti, að stærsta einstaka ábyrgðin hljóti að liggja hjá hæstv. forsætisráðherra og þessari ríkisstjórn (Forseti hringir.) sem í þessu máli eins og öðrum neitar að viðhafa vönduð (Forseti hringir.) vinnubrögð og lætur stjórnast (Forseti hringir.) fyrst og fremst af (Forseti hringir.) stundarvinsældum í stað hagsmuna íslensku þjóðarinnar.