139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

HS Orka, stefna og stjórnsýsla ríkisstjórnarinnar í málinu.

[15:26]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Tilefni umræðubeiðni minnar um málefni HS Orku og þeirrar stjórnsýslu sem ríkisstjórnin hefur sýnt í því máli vegna kaupa Magma á fyrirtækinu er tilkomin vegna nýlegra frétta um að umboðsmaður Alþingis hafi sent efnahags- og viðskiptaráðuneytinu og forsætisráðuneytinu athugasemdir og beiðni um svör. Þannig háttar til að okkur var það ekki kunnugt hér á þinginu að umboðsmaður Alþingis hefði gert athugasemdir við stjórnsýslu ríkisstjórnarinnar í málinu. Mig langar aðeins í örstuttu máli að rifja upp sögu þessa máls.

Það gerðist þannig að það fer fyrir nefnd um erlenda fjárfestingu hvort það standist lög sem um þessi efni gilda að Magma hafi keypt hlutabréf í HS Orku á sínum tíma. Það gerðist ekki einu sinni heldur gerðist það oftar í ólíkum viðskiptum. Niðurstaða nefndarinnar var sú að það stæðist lög. Ríkisstjórnin var ósátt við þá niðurstöðu. Það var augljóst af öllum viðbrögðum ráðherranna og kom síðan formlega fram í þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að skipa sérstaka nefnd til að fara yfir málið þar sem átti meira að segja að kanna lögmæti kaupanna þrátt fyrir að það hefði verið í réttum farvegi áður. Sú nefnd skilaði af sér 17. september og meginniðurstaða þeirrar nefndar var sú að það væru engir augljósir annmarkar á viðskiptunum. Engu að síður koma ráðherrarnir aftur fram og lýsa því yfir að þetta sé auðvitað ekkert annað en þröng lagahyggja en hafi ekkert með anda laganna að gera og sé auk þess í andstöðu við vilja ríkisstjórnarinnar. Þegar síðari nefndin skilaði af sér sagði t.d. hæstv. forsætisráðherra að sú niðurstaða væri veik vegna þess að það væri klofin nefnd sem stæði henni að baki og hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon tók fram að það hefðu verið mikil tímamót þegar nefndinni hafði verið komið á fót.

Eftir að seinni nefnd ríkisstjórnarinnar sem sérstaklega var ætlað að fara gegn niðurstöðu nefndar um erlenda fjárfestingu hafði komist að þessari niðurstöðu var spurt: Ja, hvað ætlar ríkisstjórnin nú að gera? Þá var áfram allt uppi á borðum, það var rætt um að ríkisstjórnin væri með skýra stefnu og hygðist eftir atvikum rifta þessum kaupum. Það var gælt við eignarnám og það var talað um að ríkisstjórnin ætlaði að beita öllum ráðum og öllum kröftum sínum til að vinda ofan af, eins og það var orðað, þeim viðskiptum sem þarna er um að ræða. Þetta hefur að sjálfsögðu valdið fullkominni óvissu fyrir fyrirtækið, sem er eitt af þeim fyrirtækjum sem á að útvega mikilvæga orku fyrir iðnaðinn í landinu, og enn heldur óvissan áfram vegna þess að allt fram yfir áramót tala ráðherrarnir út og suður um það hvort eignarnám sé á dagskrá. Við fyrirspurn hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sagði t.d. hæstv. forsætisráðherra 17. janúar sl. eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Á undanförnum mánuðum hefur vinna undir forustu hæstv. iðnaðarráðherra staðið yfir í samræmi við ályktun sem ríkisstjórnin gerði fyrr í sumar. Sú ályktun var tvíþætt, þ.e. að finna leiðir til þess að vinda ofan af Magmadæminu …“

Nú er þessi nefnd búin að skila og samkvæmt sérstakri tilkynningu sem fylgdi bráðabirgðaniðurstöðu nefndarinnar, Skýrsla nefndar um orku- og auðlindamál, kemur m.a. fram sú skoðun nefndarinnar — nei, fyrirgefið nú er ég ekki að vitna í rétta nefnd — en það hefur sem sagt komið fram mjög nýlega af hálfu iðnaðarráðherra, í tilefni af þeirri vinnu sem hefur verið í gangi undanfarna mánuði, að eignarnám fyrirtækisins sé ekki á dagskrá. Jafnvel eftir að það kom fram koma hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra aftur með eignarnámshugmyndina. Síðan gerist það nýjasta í málinu þegar ég var á fundi hjá Norðurlandaráði í vikunni að það kom út fréttabréf Norðurlandaráðs, Íslendingar endurheimta náttúruauðlindir sínar. Þar segir í fyrirsögn: „Ríkisstjórn Íslands vill kaupa aftur HS Orku af kanadísku einkafyrirtæki. Það er árangur af tillögu sem vinstri sósíalistar og grænir lögðu fram í Norðurlandaráði og söngkonan Björk fylgdi eftir.“

Þetta eru auðvitað tíðindi fyrir íslensku þjóðina. Nú er kominn tími til þess að hæstv. forsætisráðherra taki af skarið með það og útskýri fyrir þjóðinni hvort hún ætli að fara að beita eignarnámsheimildum sem hún telur sig hafa, en ég mótmæli, til að vinda ofan af þessari sölu fyrirtækisins sem hún hefur haft fjölmörg tækifæri til að stöðva, til að ganga inn í kaupin, til að taka til sín forkaupsrétt eða koma fyrirtækinu í hendur (Forseti hringir.) annarra aðila, innlendra, sem henni væru frekar þóknanlegir. En hugmyndin um að fara í eignarnám með yfir 30 milljarða kostnaði fyrir skattgreiðendur er fullkomlega (Forseti hringir.) galin og ég vænti þess og vona að forsætisráðherra stígi núna upp og taki af allan vafa um það að sú leið (Forseti hringir.) komi ekki til greina.