139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

HS Orka, stefna og stjórnsýsla ríkisstjórnarinnar í málinu.

[15:54]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Þegar Björk Guðmundsdóttir og félagar mættu í Stjórnarráðið til að afhenda ríkisstjórninni áskoranir sungu þau Sá ég spóa úti í móa. Það kemur á óvart ef þau hafa ekki séð ríkisstjórnina þar líka vegna þess að hún er algerlega úti í móa í þessu máli. (Gripið fram í.) Hér tala þau hvert í sína áttina, vinstri græn og samfylkingarfólkið, um það hvort bæði þurfi að koma opinberu eignarhaldi yfir auðlindirnar og orkunýtingarfyrirtækin eða ekki. Þetta kom glögglega fram í umræðunni. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson tók fram að þetta snerist líka um orkunýtingarfyrirtækin.

Hæstv. forsætisráðherra vill ekki slá eignarnámið út af borðinu. Hún segir að það sé ekki á dagskrá, en því kunni að verða beitt. Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir að ef ríkisstjórnin nær því ekki fram í viðræðum við þessa aðila sem ríkisstjórnin ætlar sér verði eignarnámi beitt. Og stefna ríkisstjórnarinnar hefur verið kynnt, hún er sem sagt sú að allar auðlindir á Íslandi skuli vera í opinberri eigu og orkunýtingarfyrirtækin líka.

Hér væri ágætt fyrir suma þingmenn að gera sér grein fyrir því að allt frá því að Ísland var numið hafa auðlindir verið í einkaeigu. Enn er u.þ.b. 1/3 allra auðlinda í einkaeigu og það er í góðu lagi. Þær má nýta til hagsbóta fyrir þjóðina alla. Við höfum fullveldisrétt yfir nýtingu allra þessara auðlinda, getum sett um þær lög og reglur, en það skortir algerlega á að þeir sem tala hér fyrir opinberri eigu allra auðlinda Íslendinga geri grein fyrir því hvernig eigi að ná því markmiði og að það sé yfir höfuð skynsamlegt. Hv. þm. Þór Saari vill ganga svo langt að lóðirnar undir húsunum verði líka í opinberri eigu og helst náttúran öll.

Hér eru vinstri sósíalistar að ná undirtökum í þjóðfélagsumræðunni eins og fram kom í fréttabréfi Norðurlandaráðs. Fremst í flokki fer hæstv. forsætisráðherra sem þó vill berjast fyrir inngöngu Íslands í Evrópusambandið (Forseti hringir.) og möguleikum erlendra aðila til að kaupa nýtingarfyrirtækin í sjávarútvegi.