139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd þingsályktunar um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra.

[16:00]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Þann 16. júní sl. var samþykkt þingsályktun á Alþingi þess efnis að Ísland mundi skapa sér afgerandi sérstöðu í vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis og hefur sú tillaga í daglegu tali verið nefnd Immi eða jafnvel Imminn. Hún felur í sér að leitað verði leiða hér á landi til að styrkja tjáningarfrelsi, málfrelsi, upplýsingamiðlun og útgáfufrelsi auk þess sem vernd heimildarmanna og afhjúpenda verði tryggð. Tillagan var samþykkt í sumar og féll þá í hlut mennta- og menningarmálaráðuneytis að gera úttekt á lagaumhverfi og viðbúnaði ríkisins, kanna möguleika á því að koma á fót alþjóðlegum tjáningarfrelsisverðlaunum og halda alþjóðlega ráðstefnu um réttarreglur sem gilda um netið.

Hluti tillögunnar var einnig sá að mennta- og menningarmálaráðherra mundi upplýsa Alþingi um stöðu verkefnisins innan Stjórnarráðsins á þriggja mánaða fresti. Mér þykir rétt að taka það fram hér, af því að þetta er í raun fyrsta skiptið sem gerð er grein fyrir stöðu málsins, að fyrst var óskað eftir því að ávarpa þingið vegna þessa máls í september í fyrra en það er þá komið á dagskrá nú.

Rétt er að nefna það líka í tengslum við þetta mál að það hefur vakið talsverða alþjóðlega athygli og í raun má segja að erlendir fjölmiðlar og fræðimenn hafi haft augun á Íslandi og reynt að fylgjast með framgangi verkefnisins. Þetta hefur vakið athygli langt út fyrir landsteinana og það má meðal annars rekja til umfjöllunar á alþjóðlegum vettvangi almennt um upplýsingafrelsi kringum þau lekamál sem hafa komið upp en líka, af því að ljóst má vera að ýmsir erlendir fjölmiðlar horfa á það sem einhvers konar prófmál hvernig fari með þessa tillögu hér. Ég tel rétt að hv. þingmenn velti því fyrir sér þegar við ræðum um framgang málsins að þetta er undir smásjá umheimsins.

Síðasta haust var hafist handa um það í mennta- og menningarmálaráðuneytinu að fara ítarlega í gegnum þingsályktunina og hvað hún fæli í sér. Þá var jafnframt skoðuð löggjöf í nágrannaríkjum okkar og farið að greina þau álitaefni sem tillagan tekur til. Í kjölfarið voru haldnir fundir með ráðuneytum og stofnunum sem málið varðar. Þingsályktunin var kynnt iðnaðarráðuneytinu og bent á að d-liður ályktunarinnar fæli í sér úttekt á viðbúnaði ríkisins vegna starfrækslu alþjóðlegra gagnavera. Sambærilegir fundir voru haldnir í dóms- og mannréttindaráðuneytinu, utanríkisráðuneytinu, með ríkislögreglustjóra, Póst- og fjarskiptastofnun og samgönguráðuneyti.

Það kom meðal annars fram á þessum fundum að Ísland hefði skuldbundið sig í gegnum ýmsa alþjóðasamninga, bæði í lagasetningu og í alþjóðlegu samstarfi. Óvíst var talið hvort allar tillögur sem þingsályktunin tæki til gætu komið til framkvæmda, ekki síst út af hinum alþjóðlegu skuldbindingum. Póst- og fjarskiptastofnun og samgönguráðuneytið bentu á að netöryggismálum væri ábótavant hér á landi, fjárveitingar skorti og því væri ekki hægt að tryggja innviði fjarskipta á Íslandi að óbreyttu ef þingsályktunin kæmi til framkvæmda. Þeirra mat var sem sagt að skoða þyrfti málin sérstaklega til að hægt væri að hrinda tillögunni í framkvæmd.

Ríkislögreglustjóri benti á að tryggja þyrfti vernd gagna, að vernd gagna samkvæmt tillögunni mundi ekki leiða til þess að ólöglegt efni yrði markvisst vistað innan íslenskrar lögsögu. Sérfræðingar mennta- og menningarmálaráðuneytis bentu einnig á að þingsályktunin tæki fyrst og fremst til réttinda fjölmiðla og gagnabanka en ekki til þeirra skyldna sem réttindunum fylgja. Þannig væri ekki gert ráð fyrir ábyrgðarreglum þar sem ábyrgðarmenn væru ábyrgir gagnvart því efni sem birt væri, sem hægt væri að stefna fyrir dóm væri um að ræða brot á íslenskum lögum. Því var ljóst eftir þessa fyrstu yfirferð að álitaefnin voru nokkur sem þurfti að skoða nánar og finna lausn á til að hægt væri að fylgja eftir vilja þingsins í þessum efnum.

Það var þá næsta skref mennta- og menningarmálaráðuneytis þegar þessi staða var komin upp að skoða hvað það mundi kosta að fá á grundvelli a- og b-liðar þingsályktunarinnar úttekt á íslensku lagaumhverfi og eftir atvikum löggjöf annarra ríkja. Óskað var eftir kostnaðarmati á slíkri úttekt frá Lagastofnun Háskóla Íslands og mun hún kosta um 8 millj. kr. Við það mundi bætast frumvarpsvinna ásamt kynningu og samráði, meðal annars við erlend stjórnvöld. Þetta hef ég tekið upp innan ríkisstjórnar og kynnt. Væntanlega þarf þá að leggja út í kostnað og ekki hefur verið gerð grein fyrir því hvaðan þeir fjármunir eiga að koma.

Það er kannski hluti af stærra máli sem ég held að þingið ætti almennt að skoða í vinnubrögðum sínum, þ.e. þegar við samþykkjum þingsályktunartillögur eru þær ekki kostnaðarmetnar, þeim fylgir ekki sjálfkrafa fjárveiting í fjárlögum sem á eftir koma. Þegar frumvörp þingmanna eru samþykkt fylgir þeim heldur ekki kostnaðarmat. Ég held að þetta sýni okkur að ef við viljum gera alvöru úr því að styrkja þingið, sem ég held að langflestir hér séu sammála um að skipti máli, þarf líka að tryggja að þegar við vinnum úr þingsályktunartillögum eða þingmannamálum stoppi það ekki á þessum hlutum, þ.e. þegar þingmenn samþykkja slíkar tillögur samþykki þeir um leið ákveðna fjárveitingu sem gerð verði grein fyrir í næstu fjárlögum.

Svo að dæmi sé tekið fór ég í kjölfarið yfir þær þingsályktanir sem vísað hefur verið til mennta- og menningarmálaráðuneytis á síðustu árum. Þeim hefur heldur ekki fylgt fjárveiting og þar af leiðandi hafa þær ekki komist hratt til framkvæmda og jafnvel alls ekki. Ég tel því mjög mikilvægt að við fáum niðurstöðu í þessu máli og vonast til þess, í þeim umræðum sem á eftir koma, að þingmenn viðri skoðun sína á því. Gera þarf ráð fyrir að einhverjar aukafjárveitingar renni til þessa máls eða því verði mætt með einhverju af óráðstöfuðu fé ríkisstjórnarinnar. En í öllu falli þurfum við að taka þessi vinnubrögð til endurskoðunar til lengri tíma.

Ég vil enn fremur nefna að mennta- og menningarmálaráðuneytið sendi fulltrúa samninganefndar Íslands við Evrópusambandið bréf til að benda á að nauðsynlegt væri að fá undanþágu frá tiltekinni reglugerð um fullnustu dóma til að koma í veg fyrir að Íslendingar yrðu enn verr settir vegna meiðyrðamálaflakks, Libel Tourism heitir þetta á enskri tungu, en nú er. Í kjölfarið var haldinn fundur með fulltrúum samninganefndarinnar, fulltrúum mennta- og menningarmálaráðuneytis og fulltrúum dómsmála- og mannréttindaráðuneytis í nóvember. Ákveðið var á þeim fundi að dómsmála- og mannréttindaráðuneytið mundi leita eftir sérfræðiáliti hjá réttarfarsnefnd til að fá úr því skorið hvort Evrópusambandsaðild mundi breyta núverandi lagaumhverfi sem varðar fullnustu dóma. Ef svo væri þyrftu samninganefndin og þeir stjórnmálamenn sem taka þátt í þessu ferli að taka afstöðu til þess hvort óskað yrði eftir undanþágu.

Ég vil einnig nefna að nýlega komu forsvarsmenn Internet Archives á fund í mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Markmið þeirra er að gera þekkingu aðgengilega á netinu til frambúðar, meðal annars með því að taka öryggisafrit af öllum helstu vefsíðum netsins á tveggja mánaða fresti. Jafnframt hafa þeir mikinn áhuga á að skoða og skrásetja íslenskan menningararf og gera hann aðgengilegan á stafrænu formi. Þeir líta til þessarar þingsályktunartillögu í því sambandi og telja einmitt hennar vegna álitlegt að hýsa slíkan gagnagrunn hér á landi ef lagaumhverfinu verður breytt með það að markmiði að vernda tjáningarfrelsi og frelsi til upplýsinga. Það tengist líka þeim alþjóðlega áhuga sem við höfum fundið fyrir í ráðuneytinu og vafalaust hafa flutningsmenn tillögunnar fundið mjög sterklega fyrir því að það er mikill áhugi að utan, ekki aðeins frá fjölmiðlum heldur líka frá öllum þeim sem eru að skoða sérstaklega varðveislu gagna, aðgengi að gögnum, þeim sem eru að vinna með hreyfingum sem vinna að opnu aðgengi að upplýsingum, að vísindagreinum og öðru slíku í gegnum netið — allir þessir aðilar hafa áhuga á því að líta til þess hvernig við munum fara með þessa tillögu.

Ég mun í kjölfar þessarar umræðu fara með þau skilaboð sem héðan koma aftur inn í ríkisstjórn þar sem þessi fjárveitingartillaga er til skoðunar. En ég held að það skipti miklu máli hvernig áfram verður haldið á málefnum þessarar tillögu ekki síst út af þeim miklu tækifærum sem í henni kunna að felast. Ég tel líka ástæðu til að staldra við og skoða hvernig við afgreiðum almennt þingsályktunartillögur og þingmannafrumvörp.

Ég vil að lokum segja að það er heilmikil sérþekking á álitaefnum þingsályktunarinnar innan Stjórnarráðsins og innan stofnana Stjórnarráðsins. Við lítum hins vegar svo á að verkefnið sé allumfangsmikið og erfitt sé að vinna að því með sérfræðingum innan Stjórnarráðsins og undirstofnana nema til þess komi verkefnaráðning starfsmanna við tiltekna þætti og úttekt Lagastofnunar sem ég nefndi áðan. Raunar er kveðið á um það í nefndaráliti allsherjarnefndar, sem fjallaði um málið, að mennta- og menningarmálaráðuneytið mundi ráða til sín verkefnisstjóra til að fylgja verkefninu eftir. En þá komum við aftur að fjárveitingunni sem ekki fylgdi.

Ég lít svo á að þessi mál þurfi að skoða, bæði í þessu sérstaka tilfelli og svo til lengri tíma. En ég held líka að í þessari tillögu og hvernig við vinnum úr henni felist heilmikil tækifæri til lengri tíma, bæði hvað varðar atvinnusköpun, nýtingu og fjölgun starfa í ýmsum geirum sem tengjast þessu en líka af því að marka Íslandi þá sérstöðu sem er kveðið á um í tillögunni og getur óneitanlega verið mjög spennandi kostur fyrir Ísland til lengri tíma litið.