139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

útflutningur hrossa.

433. mál
[17:03]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmönnum Einari K. Guðfinnssyni og Sigurði Inga Jóhannssyni fyrir umræðuna og fyrir góð innlegg. Þeir eru báðir í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd sem fær málið til meðhöndlunar.

Ég vil taka undir tvö atriði sem hv. þingmenn komu inn á. Það er annars vegar mikilvægi þess að standa vel að sóttvörnum og smitvörnum varðandi íslenska hestinn, ekki aðeins gagnvart þeim hestum sem við erum að flytja út heldur einnig, eins og hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson rakti, mikilvægi þess að standa vörð um hestinn hér innan lands og gera sér grein fyrir því hvaða afleiðingar það gæti haft ef smitpestir bærust inn í landið eins og við stóðum einmitt frammi fyrir sl. sumar.

Þetta er gríðarlega stór atvinnuvegur og mikilvægur og byggir á þeirri sérstöðu sem íslenski hesturinn hefur og um hana verðum við að standa vörð. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að það þurfi, og ég hef sagt það hér úr þessum ræðustól, að hafa enn betra eftirliti með hestavörum og reiðtygjum og öðru sem lýtur að og er notað í kringum íslenska hestinn, að það sé rækilega sótthreinsað ef farið er með það á milli landa en í þeim efnum eiga menn að vera mjög strangir til að geta varið íslenska hestinn hér og líka gegn innflutningi á öðrum dýrum sem við höfum staðið fast á til þessa og gerum vonandi alltaf áfram.

Hitt atriðið var að það eru ekki háar upphæðir sem um er að ræða í heild sinni í stofnverndarsjóði. En við verðum að gera okkur grein fyrir því, eins og hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson kom inn á, hversu mikilvægt það er að standa vörð um gagnaöflun og gagnasöfnun, að allir íslenskir hestar sem seldir eru úr landi séu áfram á skrá og hluti af íslenska hestakyninu hvar í landi sem þeir eru. Það er gríðarlega mikilvægt að standa vörð um sérstöðu íslenska hestsins og að hann sé sérstakt kyn, en líka til að hafa yfirsýn yfir hestastofninn í heild sinni. Hann er þannig séð einnig félags- og ræktunarhópur. Hluti af grunnmarkaðsstarfi íslenska hestinn er einmitt sú þekking og það samstarf sem við eigum þvert á landamæri og að sjálfsögðu þarf þá að tryggja ákveðinn fjárhagslegan grunn fyrir það starf.

Frú forseti. Ég vona og treysti því, eins og hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson kom inn á, að þetta fái skjóta og góða afgreiðslu í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd.