139. löggjafarþing — 67. fundur,  31. jan. 2011.

framtíðarskipan fiskveiðistjórnarkerfisins.

[15:05]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég held að það sé mikilvægt að menn átti sig á að allar hugmyndir um að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu og losa um eða rjúfa núverandi réttarsamband milli handhafa veiðiheimildanna og eigandans, þjóðarinnar, fela í sér einhvers konar innköllun, fyrningu eða sambærilegar aðferðir og síðan endurráðstöfun á einhverjum nýjum grunni. Það er kannski ekki mikill munur á þessum aðferðum þegar betur er að gáð. Það sem skiptir mestu máli er útfærslan, hvað tekur við og hvers konar starfsskilyrði sjávarútvegurinn býr þá við í framhaldinu.

Í aðalatriðum hafa hugmyndirnar verið tvær, hægfara fyrning, innköllun á löngum tíma sem býr þá til aðlögun fyrir greinina í gegnum það ferli, eða það sem samningaleið eða uppboðsleið eða annað slíkt felur í sér, að innköllunin fari öll fram strax en aðlögunin komi í gegnum það kerfi sem tekur við. Þannig væri sjávarútveginum tryggður stöðugleiki og starfsumhverfi sem gerði það að verkum að hann réði í senn við skuldir sínar og gæti fjárfest með eðlilegum hætti.

Mér hefur aldrei þótt boðleg sú umræða sem gengur út á að ábyrg stjórnvöld í einhverju landi ætli sér að kollvarpa undirstöðu útflutningsgreinar þjóðarinnar. Ég nenni ekki að taka þátt í umræðum um slíkt. Allir Íslendingar, hvar í flokki sem þeir standa, vita hversu mikilvægur sjávarútvegurinn er, ekki síst á þessum tímum. Hvorki útgerðarmenn, stjórnmálamenn né aðrir eiga að ræða þetta á öðrum grunni en þeim að við ætlum að finna lausnir, búa til fyrirkomulag í þessum efnum sem sátt getur orðið um. Það náðist að mörgu leyti góður árangur í sáttanefndinni í þeim efnum. Við ætlum að hætta þrætunni um hver á þessa auðlind, það er þjóðin. Við ætlum að skilgreina hvað það er sem menn hafa með höndum, það er afnotaréttur. Menn eiga að greiða eðlilegt gjald fyrir hann og við eigum að finna eitthvert jafnvægi milli þeirra sjónarmiða sem þarna þarf að sætta. Það þarf að takast. Það er enn (Forseti hringir.) mín stefna og það er enn stefna ríkisstjórnarinnar og ég vonast sannarlega til þess að við náum sem fyrst farsælli niðurstöðu í þetta mál enda tími til kominn eftir 27 ára þrætu (Forseti hringir.) um það.