139. löggjafarþing — 67. fundur,  31. jan. 2011.

framtíðarskipan fiskveiðistjórnarkerfisins.

[15:08]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ef þetta er rætt af yfirvegun held ég að menn þurfi ekkert að vera óskaplega sammála. Auðvitað þarf að skapa sjávarútveginum stöðugt starfsumhverfi eftir því sem kostur er en það þýðir hins vegar ekki að ganga út frá því að allt verði óbreytt og ekki megi hreyfa við neinu. Þeir sem draga upp dekksta mynd af því hverjar afleiðingar þess verði fyrir sjávarútveginn að hér verði breytt um fiskveiðistjórnarkerfi ættu þá að spyrja sig líka: Hvernig stendur á því að hann er svoleiðis staddur að ef andað er á hann fer hann allur á hausinn? (Gripið fram í.) Gæti hugsast að eitthvað af skuldum sjávarútvegsins væri skilgetið afkvæmi kvótakerfisins, (Gripið fram í: Það getur ekki verið.) að hið ofurháa verð og braskið sem fór í gang í kringum þetta hafi átt sinn þátt í að skuldsetja greinina? Er hún kannski að kikna undan skuldum sem hún m.a. ber vegna þess að hún hefur keypt aðra aðila út úr greininni og auðvitað tapað fé á öðrum fjárfestingum sem er öllu dapurlegra? Ég held að það eigi að halda áfram nákvæmlega á þessu spori sem málið er í. (Forseti hringir.) Tæknileg útfærsla hefur verið í vinnslu í kjölfar niðurstöðu sáttanefndarinnar og sjávarútvegsráðherra hefur boðað að búast megi við (Forseti hringir.) frumvarpi í framhaldinu, líklega í næsta mánuði.