139. löggjafarþing — 67. fundur,  31. jan. 2011.

ástandið í Egyptalandi.

[15:19]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég læt mér nægja ræðustól Alþingis til að tjá viðhorf mín til þessa. Ég tek undir fordæmingu hv. þingmanns gagnvart því að fólk hafi verið svipt tjáningarfrelsi og möguleikum til að kom skoðunum sínum á framfæri, t.d. í gegnum vefsíður og með öðrum hætti, svo sem með banni við fjölmiðlun. Sömuleiðis fordæmi ég líka að sjónvarpsstöðinni sem hv. þingmaður nefndi skuli hafa verið lokað.

Það sem við sjáum nú gerast í Norður-Afríku er engu líkara en að logi byltingar fari þar yfir löndin. Við sáum hvað gerðist í Túnis, við sjáum hvað er að gerast í Egyptalandi. Íslenska ríkisstjórnin tekur hvarvetna undir mótmæli gegn því að lög um mannréttindi séu ekki virt. Við lítum svo á að það stjórnarform sem er æskilegast og eftirsóknarverðast sé lýðræði. Grundvöllur þess er frjálsar kosningar þar sem stjórnarandstaða fær að koma sjónarmiðum sínum óáreitt á framfæri. Við teljum að grundvöllur þess að hinn raunverulegi vilji fólks í Egyptalandi fái brotist fram sé að haldnar verði frjálsar kosningar þar sem engin höft eru á skoðanamiðlun eða tjáningarfrelsi. Ég lít svo á að íslenska ríkisstjórnin sé í meginatriðum sammála niðurlagsorðum hv. þingmanns í ræðunni áðan.