139. löggjafarþing — 67. fundur,  31. jan. 2011.

staða innanlandsflugs.

[15:36]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Eins og allir vita er innanlandsflugið gríðarlega þýðingarmikið og sennilega er það eitthvert besta dæmið sem við höfum um almenningssamgöngur hér á landi. Um 400 þúsund manns hafa farið að jafnaði árlega um Reykjavíkurflugvöll og tæplega 200 þúsund manns um Akureyrarflugvöll en færri annars staðar. Þetta er lífæð ýmissa byggða sem eru fjærst höfuðborgarsvæðinu en þangað þurfa menn að sækja sér margvíslega þjónustu eins og allir vita.

Nýting innanlandsflugsins ræðst m.a. af umsvifum í hagkerfinu. Með minnkandi umsvifum þar hafa þessi umsvif dregist saman. Versnandi lífskjör hafa líka haft þarna mikil áhrif. 10% samdráttur varð í innanlandsflugi á árinu 2009 og í fyrra var samdrátturinn 7% og fer þá að nálgast um fimmtungssamdrátt á tveimur árum. Þetta endurspeglar auðvitað ástandið en sem betur fer eru einhverjar vísbendingar um að þetta sé að snúast við aftur. En það er alveg ljóst mál að hækkanir á flugfargjöldum geta aftur orðið þess valdandi að það slær í bakseglin.

Ríkisvaldið hefur komið að því að styðja einstakar flugleiðir og það skiptir auðvitað mjög miklu máli en langmestur hluti umferðarinnar fer engu að síður um flugleiðir sem eru reknar á viðskiptalegum forsendum. Allt er þetta flug mjög háð því hvernig umhverfi rekstrarins er. Til dæmis er alveg ljóst að það þolir ekki mjög miklar álögur. Það er líka vandséð hvernig það getur samrýmst stefnu ríkisstjórnarinnar. Hún hefur lagt mikla áherslu á almenningssamgöngur og kynnt stefnu sína í þeim efnum. Þess vegna skýtur það mjög skökku við að á sama tíma og verið er að kynna stefnu sem felur í sér vilja um auknar almenningssamgöngur skuli hið sama ríkisvald leggja til stórauknar álögur á innanlandsflugið. Þetta gerist á sama tíma og umsvif innanlandsflugsins, tekjur þess, eru að dragast saman og einn stærsti útgjaldapósturinn, eldsneytisverðið, hefur hækkað gríðarlega á allra síðustu mánuðum og missirum.

Í fjárlagafrumvarpinu var gert ráð fyrir að gerð yrði hagræðingarkrafa til Isavia sem óhjákvæmilegt var að ylti með einhverjum hætti út í verðlag og legðist þannig á farþega. Að vísu var dregið úr þeirri hagræðingarkröfu en hún er engu að síður mjög umtalsverð. Þessi hagræðingarkrafa, sem allsendis er óvíst um hvernig verður útfærð, kemur ofan í aðrar hækkanir sem hafa átt sér stað nú þegar.

Ég vil nefna í þessu sambandi rúmlega þreföldun á fluggjaldi, 60% hækkun á lendingargjöldum, 55% hækkun á flugvallargjaldi, tvöföldun á farþegaskatti og gert er ráð fyrir að þessar hækkanir taki gildi 1. apríl nk. Þessar hækkanir þýða á ársgrundvelli 320 millj. kr. Í byrjun þessa árs hóf hið opinbera að leggja kolefnisgjald á flugvélaeldsneyti sem eingöngu leggst á innanlandsflugið. Gert er ráð fyrir að það geti kostað innanlandsflugið um 20 millj. kr. og að þetta gjald verði síðan tvöfaldað þannig að gera má ráð fyrir að kostnaður innanlandsflugsins vegna þess verði um 40 millj. kr.

Nýlega var lagt fram á Alþingi frumvarp um umhverfisgjöld á ferðaþjónustuna. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að sérstakt gjald verði m.a. lagt á innanlandsflug til uppbyggingar á ferðamannastöðum. Miðað við upplegg frumvarpsins má gera ráð fyrir að kostnaður innanlandsflugsins af þessu gjaldi verði um 25 millj. kr. Hér er um að ræða 400 millj. kr. gjaldaaukningu á innanlandsflug á ársgrundvelli. Ef þessum kostnaði verður velt út í verðlag flugsins má búast við því að eingöngu vegna þessa verði flug að hækka verulega og hefur þá ekki verið tekið tillit til annarra fyrirsjáanlegra hækkana eins og launahækkana og eldsneytishækkana. Við erum að tala um kostnaðarauka sem kemur beint frá ríkisvaldinu upp á 10% af veltu innanlandsflugsins í landinu sem fyrr eða síðar mun auðvitað koma fram í fargjöldunum.

Í meðförum Alþingis var ákveðið að draga úr hagræðingarkröfum vegna Isavia en enn þá liggur ekki fyrir hvernig fyrirsjáanlegar útgjaldahækkanir muni leggjast á innanlandsflugið að fullu. Þetta er mjög gagnrýnivert og skapar óvissu í þýðingarmiklum atvinnurekstri með samsvarandi afleiðingu fyrir ferðaþjónustu almennt, byggðirnar sérstaklega og síðan fyrir þennan þýðingarmikla atvinnurekstur.

Almenningur á landsbyggðinni sem nýtir sér innanlandsflugið er núna í algerri spennitreyju. Annars vegar stendur fólk frammi fyrir því að flugfargjöld muni hækka umtalsvert ef álögur ríkisins fara hækkandi og hins vegar hefur eldsneytisverð að öðru leyti snarhækkað svo fólk hefur ekki efni á að nýta sér akstursmöguleika. Þessu fylgja síðan kostnaðarhækkanir fyrir atvinnulífið á landsbyggðinni sem gerir það síður samkeppnisfært. Þessi þróun ýtir því enn undir flótta frá landsbyggðinni og hvetur til þess að fyrirtæki færi sig um set í samkeppnishæfara umhverfi á höfuðborgarsvæðinu. Ég trúi því ekki að þetta sé vilji ríkisstjórnarinnar og síst hæstv. innanríkisráðherra. Ég vænti þess því að hann muni á eftir kynna okkur áform sín um hvernig koma megi í veg fyrir að skattahækkanir þær sem nú hafa verið samþykktar eða eru í farvatninu leiði til enn hærri fargjalda í innanlandsflugi.