139. löggjafarþing — 67. fundur,  31. jan. 2011.

undirbúningur og framkvæmd náttúruverndaráætlunar.

429. mál
[16:03]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Mig hefur lengi undrað hversu snautlegur þáttur náttúrustofa hefur verið við undirbúning og framkvæmd náttúruverndaráætlunar. Ég hef æ ofan í æ vakið máls á því í þinginu þegar náttúruverndaráætlun hefur verið á dagskrá að það sé mjög sérkennilegt til þess að hugsa að náttúrustofurnar, sem voru byggðar upp á grundvelli lagasetningar frá Alþingi, hefðu lítið hlutverk við framkvæmd og undirbúning náttúruverndaráætlunar.

Náttúrustofurnar eru í raun og veru vísindastofnanir sem starfa ekki síst á landsbyggðinni. Þær hafa sannað ágæti sitt í gegnum tíðina og nú efast enginn um að hlutverk náttúrustofanna er mikið, ekki bara fyrir landsbyggðina heldur almennt í vísinda- og þróunarsamfélaginu. Þess vegna hefur mér fundist blasa við að þegar við ræðum um náttúruverndaráætlun, undirbúning og framkvæmd hennar, þá ætti að gera ráð fyrir því að náttúrustofurnar hefðu þar allmikið hlutverk.

Nú verður að segjast eins og er að ég fór marga erindisleysuna í þessu máli, ekki síst gagnvart þeim ríkisstjórnum sem ég þó studdi. Þess vegna fagnaði ég því mjög þegar svo vel tókst til við meðferð náttúruverndaráætlunar í þinginu síðast. Eftir að ég hafði hreyft þessum sjónarmiðum og lagt fram breytingartillögu varðandi náttúruverndaráætlun gerðist það að bæði þáverandi formaður umhverfisnefndar, hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir, og hæstv. ráðherra Svandís Svavarsdóttir tóku mjög undir þetta sjónarmið og niðurstaðan varð sú að á Alþingi var samþykkt breytingartillaga sem ég lagði fram varðandi náttúruverndaráætlunina sem hljóðar svo, með leyfi virðulegs forseta:

„Náttúrustofur komi að undirbúningi og framkvæmd náttúruverndaráætlana í samræmi við margháttað hlutverk þeirra samkvæmt lögum.“

Þetta var sannarlega ánægjulegt og skiptir auðvitað máli. Ég veit að hjá náttúrustofunum í landinu vöknuðu miklar væntingar um hlutverk við undirbúning að náttúruverndaráætluninni og sömuleiðis eftirfylgni og framkvæmd hennar.

Nú er liðinn nokkur tími. Þess vegna langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig hefur þessu máli undið fram? Hvernig hefur verið staðið að því að tryggja aðild náttúrustofanna bæði að undirbúningnum og framkvæmd gildandi náttúruverndaráætlunar, samanber ákvæði í þingsályktuninni sem samþykkt hefur verið? Hvernig hefur verið staðið að því að tryggja að náttúrustofurnar hafi eðlilegan atbeina að framkvæmd náttúrverndaráætlunarinnar sem samþykkt var á síðasta þingi?