139. löggjafarþing — 67. fundur,  31. jan. 2011.

undirbúningur og framkvæmd náttúruverndaráætlunar.

429. mál
[16:09]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Það er margt líkt með friðlýsingum og náttúruverndaráætlunum og siðareglum — það er mjög mikilvægt að þeir sem eiga að framfylgja þeim á hverjum stað séu þátttakendur í ferlinu. Þess vegna fagna ég þessari umræðu og fyrirspurn hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar og svari hæstv. umhverfisráðherra þess efnis að það sé nauðsynlegt að hafa náttúrustofurnar í landinu með í ráðum og við skipulagningu og framkvæmd náttúruverndaráætlana.

Það ríkir víða tortryggni í samfélaginu. Mesta tortryggnin af hálfu landsbyggðarinnar gagnvart höfuðborgarsvæðinu er kannski í garð hins svokallaða „sérfræðings að sunnan“, ekki síst á þessu sviði, hvort sem um er að kenna framkvæmd náttúruverndaráætlana og friðlýsinga hingað til eða ekki. Þess vegna er ákaflega mikilvægt að menn fari sér hægt og auki samstarf við heimamenn, ekki síst við náttúrustofurnar en einnig sveitarfélögin og aðra hagsmunaaðila.