139. löggjafarþing — 67. fundur,  31. jan. 2011.

undirbúningur og framkvæmd náttúruverndaráætlunar.

429. mál
[16:14]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem kemur fram í máli hv. þingmanns að um fjölmörg sjónarmið sé að ræða. Vaxandi starfsemi náttúrustofanna kemur í raun og veru til móts við mjög mörg sjónarmið, ekki einungis þau vísindalegu sjónarmið sem liggja í augum uppi, þ.e. að styrkja þann vísindalega grunn sem er að baki vel framsettri náttúruverndaráætlun, heldur ekki síður þau mikilvægu byggðasjónarmið að til séu fjölbreytt og spennandi störf heima í héraði á sviði náttúruvísinda. Ég hef miklar mætur á náttúrustofunum, hef kynnst þeim sem umhverfisráðherra og tek undir þau sjónarmið sem þingmaðurinn hefur vakið máls á og haldið á lofti og staðið þá vakt af prýði.

Mig langar að nefna í lok þessarar umræðu mikilvægi þess að jafnaði að við stillum betur saman þær áætlanir sem um er að ræða. Við erum með náttúruverndaráætlun og við verðum að gæta að því, eins og kom ágætlega fram í máli hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar, að hún verði ekki orðin tóm, að eitthvert samhengi sé í því sem þar er sett fram og að heimamenn séu hafðir með í ráðum og að skilningur sé líka á því sem talið er vert að friðlýsa í íslenskri náttúru. Við þurfum að stilla saman fleiri áætlanir, eins og til að mynda rammaáætlun. Við þurfum ekki síður að skoða rammaáætlunina í samhengi við drög að nýrri orkustefnu og náttúruverndaráætlun því að allt snýst þetta jú um umgengni við íslenska náttúru.

Ég vil að lokum þakka fyrir góða og upplýsandi umræðu.