139. löggjafarþing — 67. fundur,  31. jan. 2011.

stefna varðandi framkvæmdir.

215. mál
[16:20]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Enda þótt spurningin sé tiltölulega þröng og snúi að mannaflafrekum framkvæmdum og einbreiðum brúm víkur hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson að atvinnumálunum í víðara samhengi og rifjar upp ræður sem ég hef flutt um það efni. Ég er honum þakklátur fyrir það. Ég minni á að við þurfum að standa vörð um velferðarþjónustuna og þá sem þar starfa. Staðreyndin er sú að það eru karlastörf sem verða fyrst fyrir barðinu á kreppunni, síðan eru það kvennastörf í umönnunarþjónustu. Þar er hætta á að kerfisbreyting verði sem vari miklu lengur.

Hvað varðar einbreiðu brýrnar þá vil ég segja að af vegaframkvæmdum er brúargerð mannaflafrekust. Á vegakerfinu öllu eru einbreiðar brýr um 760 talsins, þar af um 200 á stofnvegunum. Margar þeirra verða einbreiðar um langa framtíð, enda ekki sérstök ástæða til að endurbyggja allra brýr þar sem umferð er lítil. Hins vegar eru slíkar brýr víða á vegum þar sem umferð er þung og full ástæða til að endurnýja þær og tvöfalda enda um mikilvæga umferðaröryggisaðgerð að ræða.

Á vegakerfinu öllu eru um 200 einbreiðar brýr þar sem umferðin er 100 bílar á dag eða meira og 100 brýr þar sem hún er 200 bílar á dag eða meira. Undanfarin ár hefur Vegagerðin náð að fækka einbreiðum brúm að meðaltali um 10–15 á ári. Full ástæða er til að setja slík verkefni framarlega í forgangsröðun framkvæmda, þá ekki síst í öryggisskyni.