139. löggjafarþing — 67. fundur,  31. jan. 2011.

stefna varðandi framkvæmdir.

215. mál
[16:23]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að ítreka fyrirspurn mína til hæstv. ráðherra, ekki síst í ljósi þess sem kom fram og við ræddum og hefur einnig sést í fjölmiðlum síðustu daga, sem er sú sorglega staðreynd að við þurfum að eyða rúmlega 70 milljörðum í atvinnuleysisbætur. Er það ekki rétt hjá mér að þrátt fyrir góðan vilja og stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar hafi ekki einu sinni farið milljarður til atvinnuuppbyggingarinnar við mannaflafrekar framkvæmdir?

Ég tek undir þá miklu þörf sem er á framkvæmdum við margar af þessum einbreiðu brúm. Til að mynda eru frá Hvolsvelli austur að Höfn í Hornafirði á hringvegi 1, sem er talsvert mikið ekinn, 22 einbreiðar brýr. Sumar af þeim eru þannig að þær þurfa að fara inn á vegáætlun þar sem þær eru umfangsmiklar og kosta mikla fjármuni en eru nauðsynlegar, eins og brú yfir Hornafjarðarfljót. Aðrar eru litlar og væri hægt að fá jarðverktaka og smiði á hverju svæði til þess að fara í slíkar framkvæmdir. Þær kosta hlutfallslega lítið en hafa gríðarlega jákvæð áhrif hvað öryggi varðar, fyrir utan að skapa atvinnu hringinn í kringum landið ef menn færu í þetta sem sérstakt verkefni.

Ég tel mikilvægt að benda á að á árinu 2009 var gjaldþrotamet fyrirtækja í landinu og á árinu 2010 var metið því miður slegið. Í byggingar- og verktakageiranum er langmest um gjaldþrot, þar eru yfir 30% þeirra sem í þessum greinum starfa atvinnulausir. Það er þörf á að þessi stefna ríkisstjórnarinnar fari í framkvæmd. Það væri áhugavert að heyra frá ráðherra hvort standi til (Forseti hringir.) að auka fjármuni í þetta verkefni, þó ekki væri nema milljarður á móti 70 milljörðum í atvinnuleysisbætur.