139. löggjafarþing — 67. fundur,  31. jan. 2011.

bann við búrkum.

252. mál
[16:38]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Nokkru fyrir jól lagði ég fram fyrirspurn til hæstv. þáverandi dóms- og mannréttindaráðherra, sem nú er hæstv. innanríkisráðherra. Ég spyr hæstv. ráðherra að því hvort hann telji rétt að banna svonefndar búrkur.

Ég tel mikilvægt að taka þessa umræðu í tíma. Viðbrögðin við því að setja hana fram voru kannski fyrirsjáanleg. Sumir fögnuðu mjög umræðunni en aðrir sögðust bara alls ekki vilja ræða þetta vegna ýmissa sjónarmiða, kannski á grundvelli flokkspólitískra sjónarmiða en líka á grundvelli þess að ekki væri rétt að tala um að banna búrkur vegna þess að þá væri ekki verið að sýna nægilega mikið umburðarlyndi í krafti trúfrelsis.

Ég tel það hins vegar mikinn misskilning hjá fólki að það sýni umburðarlyndi að ræða ekki hlutina, að mega yfirhöfuð ekki ræða hlutina eins og þeir birtast okkur. Nú sjáum við það gerast, m.a. á Norðurlöndunum, að þar er þetta mjög til umræðu. Forsætisráðherra Dana hefur lýst þeirri skoðun sinni að banna eigi búrkur, forsætisráðherra Noregs hefur hvatt mjög til umræðu um þetta og Frakkar og Ítalir hafa einfaldlega bannað notkun á búrku.

Mig langar að vekja athygli á áhugaverðu viðtali við Amal Tamimi félagsfræðing, sem er fædd í Palestínu, sem tekið var við hana fyrir jól á RÚV. Hún er spurð um þessa fyrirspurn, skoðun sína á henni, og segir, með leyfi forseta:

„Mér finnst þetta koma á réttum tíma af því að við erum aðallega að reyna að forðast það vandamál sem er að gerast í hinum löndunum. Þau setja bann eftir að fólk byrjar að nota þær.“

Það er það sem ég er að tala um, að við tökum þessa forvirku umræðu, þ.e. að við förum ekki að ræða þetta þegar við stöndum frammi fyrir því að hingað koma konur klæddar búrkum, að menn gangi að þeirri vitneskju gefinni hver skoðun okkar er og hver stefna okkar er í staðinn fyrir að bann eftir á muni þá hugsanlega beinast mjög gegn viðkomandi einstaklingum sem eru í búrkum.

Ég vonast til þess, með þessari spurningu og fyrirspurn til ráðherra, að ég fái skýrt svar um leið og ég vonast til að þetta verði rætt á yfirvegaðan hátt. Ég vil taka undir með Amal Tamimi sem segir líka að búrkan hafi ekkert með trú að gera — auðvitað er það þannig að sum lönd hafa reynt að gera þetta að trúarlegu tákni — heldur miklu frekar pólitík. Hún er ekki sammála því að umræðan afhjúpi ótta við íslam eins og sumir halda fram. Hún segir: Þetta er bara karlavald eða pólitík, ekki trú. Hún bendir t.d. á (Forseti hringir.) að búrkur eru víða bannaðar í háskólum og á opinberum stöðum í arabalöndum.

Spurning mín til hæstv. ráðherra er því: (Forseti hringir.) Telur ráðherra rétt að banna búrkur?