139. löggjafarþing — 67. fundur,  31. jan. 2011.

bann við búrkum.

252. mál
[16:46]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir spurninguna og ráðherra fyrir skýrt svar. Ég vil taka undir svar hæstv. ráðherra, ég tel að við eigum ekki að banna búrkur. Þegar við horfum á samskipti á milli ólíkra menningarheima og samskipti innan ríkja virðast helstu átakalínurnar oft snúast um það hvernig á að stjórna líkama kvenna og það tel ég að umræðan um búrkuna endurspegli mjög vel.

Ég sat fund hjá Evrópuráðsþinginu þar sem var verið að fjalla um ályktun um bann gegn búrkunni. Evrópuráðsþingið er einn helsti vettvangur baráttu fyrir mannréttindum á heimsvísu og þar kom mjög skýrt fram að það væri ekki rétta leiðin að banna ákveðinn klæðnað heldur ætti maður frekar að horfa á það hvernig maður getur rétt hlut þeirra sem verið er að kúga, ekki að ríkið fari að kúga fólk til að snúa frá trú sinni.