139. löggjafarþing — 67. fundur,  31. jan. 2011.

bann við búrkum.

252. mál
[16:50]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Þetta er flóknara mál en svo að því verði gerð nein skil á einni mínútu. Ég er almennt á móti því að skipta mér af klæðnaði annarra en ég er líka áhugamaður um það að fólk sé ekki neytt til að klæðast því sem það vill ekki klæðast.

Umræðan um þetta kemur meðal annars frá Frakklandi og það er rétt að muna eftir því, bæði hv. fyrirspyrjandi og aðrir sem hér eru í salnum, að þar á hún rót sína í því að í Frakklandi er talið að skólar og aðrir opinberir staðir séu ekki trúarstofnanir heldur borgaralegar stofnanir, Laïc heitir það á frönsku, og þar með eigi ekki að gera ráð fyrir því að menn þurfi að vinna þar undir trúartáknum sem þeim ekki líka og að menn sýni fulla kurteisi með sína eigin trú og lífsviðhorf í hinu sameiginlega borgaralega opinbera rými.