139. löggjafarþing — 67. fundur,  31. jan. 2011.

flutningur Landhelgisgæslunnar á Miðnesheiði.

427. mál
[17:01]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Með bréfi sem sent var fyrir stuttu til hæstv. forsætisráðherra og afriti til hæstv. innanríkisráðherra er ljós og staðfest samstaða allra alþingismanna í Suðurkjördæmi og sveitarstjórnarmanna á Suðurnesjum þvert á stjórnmálaflokka um flutning Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja. Það vekur væntingar um að ákvörðun um það verði tekin hið fyrsta. Umræða um flutning Landhelgisgæslunnar hefur staðið yfir um nokkurt skeið og það er ljóst að fjölmargir kostir fylgja því að flytja starfsemina til Suðurnesja. Ég treysti því að hæstv. innanríkisráðherra leggi áherslu á málið og greiði fyrir því að ríkisvaldið sýni þannig í verki stuðning sinn við uppbyggingu atvinnulífs á Suðurnesjum og skapi um leið Landhelgisgæslunni betra starfsumhverfi.