139. löggjafarþing — 67. fundur,  31. jan. 2011.

flutningur Landhelgisgæslunnar á Miðnesheiði.

427. mál
[17:04]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við höfum öll áhyggjur af atvinnuástandinu á Suðurnesjum, það er ekki um að efast, og úr því þarf að reyna að leysa en það verður náttúrlega að gera það þannig að það borgi sig fyrir okkur öll. Margt bendir til þess við fyrstu sýn að það sé gott að setja Landhelgisgæsluna niður á Suðurnesjum, þar er flugvöllur, þar er höfn, þar er hæft fólk og við fyrstu sýn virðist allt benda til þess að það sé hið besta mál.

Ég fagna þeirri skýlausu yfirlýsingu hæstv. innanríkisráðherra að hann ætli að meta þetta út frá hagkvæmnissjónarmiðum og þau verði látin ráða í þessum efnum. Ég fagna því sérstaklega.