139. löggjafarþing — 67. fundur,  31. jan. 2011.

umhverfisstefna.

360. mál
[17:09]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Í stefnu Vinstri grænna í sjávarútvegsmálum, Hafið bláa hafið, segir, með leyfi forseta:

„Hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar þarf að verða ráðandi í sjávarútvegsstefnu Íslendinga. Tryggja verður að fiskveiðar umhverfis landið séu sjálfbærar og í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar um verndun vistkerfa, lífríkis og hafsbotns. Stórefla þarf hafrannsóknir til að tryggja vernd og sjálfbæra nýtingu Íslandsmiða til lengri tíma litið. Loks felast tækifæri í orkusparnaði og til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með því að stuðla að breytingum á fiskveiðiflotanum og á vissum sviðum vinnslu í landi.“

Í landbúnaðarstefnu Vinstri grænna segir, með leyfi forseta:

„Stefna skal að sjálfbærni landbúnaðar á Íslandi. Framleiða skal innan lands eins og kostur er það eldsneyti og þau áburðarefni sem nauðsynleg eru við matvælaframleiðslu þjóðarinnar.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð telur mikilvægt að landbúnaðurinn og öll önnur landnýting þróist í sátt við umhverfið og á grundvelli viðhorfa um sjálfbæra þróun þannig að vistvænir búskaparhættir og góður aðbúnaður búfjár verði ávallt í öndvegi.“

Ég hef verið mjög sammála því að mikilvægt sé að vinna að sjálfbærri þróun í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum. Því hef ég fylgst af áhuga og athygli með ráðuneyti sjávarútvegs- og landbúnaðarmála eftir að fyrsti vinstri græni ráðherrann tók þar við völdum. Gerði ég ráð fyrir að fljótlega færi þar af stað vinna við að innleiða hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar í sjávarútvegs- og landbúnaðarstefnu Íslendinga. Í dag eru liðin tæp tvö ár síðan ráðherrann tók við völdum og heldur lítið hefur borið á þessum áherslum í þeim málum sem hafa komið inn í þingið frá ráðherranum, hvað þá í hans eigin málflutningi. Þetta var svo staðfest þegar ég sendi inn fyrirspurn um útblástur gróðurhúsalofttegunda í sjávarútvegi og landbúnaði og til hvaða aðgerða ráðherra hefði gripið þar sem svarið var heldur rýrt og eiginlega frekar sláandi hversu lítið ráðherrann hefur beitt sér í þessum efnum. Umhverfisáhrif þessara atvinnugreina eru umtalsverð og má nefna að 38,1% af heildarlosun vegna eldsneytisnotkunar á landinu eru vegna sjávarútvegs. Heildarlosun vegna landbúnaðar er um 12% af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda frá landinu, mest vegna gerjunar í vömb og maga og losun úr landbúnaðarlandi.

Hvar eru verkefnin sem hvetja útgerðina eða landbúnaðinn til að draga úr notkun á óendurnýjanlegum orkugjöfum? Og hvar eru verkefnin þar sem talað er um landgræðslu- og skógræktarverkefni sem mikilvirkustu verkefnin til að auka bindingu kolefnis? Hvar hefur ráðherrann verið þegar staðið hefur til eða menn hafa unnið að því að koma af stað nýjum verkefnum til að nýta hauggas frá búfjáráburði t.d. til framleiðslu á rafmagni eða annars konar notkun?

Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hver er umhverfisstefna ráðuneytisins og hvernig er henni framfylgt?