139. löggjafarþing — 67. fundur,  31. jan. 2011.

Evrópusambandið og stöðvun hvalveiða.

399. mál
[17:37]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna mjög yfirlýsingu hæstv. sjávarútvegsráðherra og tek undir með honum að það er mjög mikilvægt fyrir okkur sem eyríki og fiskveiðiþjóð að hafa þetta vald í okkar höndum. Ég er líka mjög ánægður með hversu fast hann hefur fylgt eftir ákvörðun þáverandi sjávarútvegsráðherra, hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar, um að leyfa atvinnuveiðar. Við skulum sjá til að svo verði áfram.

Verið er að fylgja eftir þingsályktunartillögu, eins og fram hefur komið, sem samþykkt var í þinginu 1999. En það er einnig vert að minnast á að árið 2007 var lögð fram þingsályktunartillaga sem náðist reyndar ekki að klára að afgreiða á þinginu, en hún var lögð fram af meiri hluta þingmanna. Það var drjúgur meiri hluti þingmanna á því þingi sem skrifaði undir þá tillögu. Þar kom því fram mjög skýr afstaða þingsins í málinu. (MÁ: Af hverju var hún ekki afgreidd?)

Rétturinn er okkar til að nýta auðlindirnar. Það er alltaf magnað að heyra hvernig andstæðingar hvalveiða tala, sem hv. þm. Mörður Árnason er í fararbroddi fyrir á þinginu. Það verður ekki lengi, sagði hv. þingmaður, sem við munum fá að veiða hval, enda er alþjóðasamfélagið á móti okkur, eins og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir sagði. Í Alþjóðahvalveiðiráðinu eru 80 ríki. Þar eru u.þ.b. 50% í hvorum hópnum, með og á móti hvalveiðum, þannig að alþjóðasamfélagið er ekki meira á móti þeim en svo. Alþjóðasamfélag hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur nær sennilega ekki mikið út fyrir Evrópusambandið.

Hv. þm. Mörður Árnason sagði að þetta væru alþjóðlegir stofnar, en svo mættum við alveg skoða að veiða hrefnu og aðra hvali hérna. Eru það ekki alþjóðlegir stofnar, hv. þingmaður? Allar okkar veiðar eru í fullu samræmi við alþjóðasamninga. Stofnstærðir okkar eru samþykktar (Forseti hringir.) og áætlanir og rannsóknir okkar eru samþykktar af vísindanefnd Alþjóðahvalveiðiráðsins þar sem í sitja á annað hundrað vísindamenn. Við förum (Forseti hringir.) samkvæmt öllum alþjóðlegum lögum og reglum í veiðum okkar og munum gera svo áfram.