139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það vildi svo til í síðustu viku að einn af æðstu embættismönnum þjóðarinnar, seðlabankastjórinn, taldi sig ekki geta skýrt viðskiptanefnd frá atriðum er varða söluna á Sjóvá, einhverjum atriðum eða viðburðum sem urðu til þess að eftir langar samningaviðræður var kauptilboð dregið til baka nokkru fyrir jól.

Í máli seðlabankastjóra kom fram að aðallögfræðingur Seðlabankans hefði ráðgast við aðallögfræðing Alþingis og komist að þeirri niðurstöðu að í þingsköpum væri einungis kveðið á um trúnaðarskyldu í utanríkismálanefnd. Tekið er skýrt fram, virðulegi forseti, að ég dreg ekki í efa að seðlabankastjóri, sem aðrir starfsmenn Seðlabankans, sé bundinn trúnaði um störf sín.

Í þessu tilfelli er til umfjöllunar sala á einu af þeim fyrirtækjum sem komst í ríkiseigu í efnahagshamförunum og liggur í augum uppi að það er erfitt fyrir okkur alþingismenn að fylgja því eftir hvort allt sé eðlilegt í þeim efnum ef embættismennirnir, sem ábyrgir eru, bera fyrir sig trúnaði. Þegar ég segi þetta á ég við að þingnefndin heiti trúnaði um það sem upplýst er enda hef ég hingað til talið það hina eðlilegu meðferð að ef þingmenn heita embættismanni eða öðrum trúnaði um það sem fram kemur á fundi þingnefnda þá gildi það.

Ég tel, virðulegi forseti, að við þurfum að fá úr því skorið hvort það sé virkilega svo að embættismenn ríkisins geti neitað að svara þingnefndum eins og raunin varð í þessu tilfelli. Ef svo er þurfum við að hugsa hvernig ráða megi bót á því.