139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

störf þingsins.

[14:12]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti.

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður hv. þingmenn um að gefa ræðumanni hljóð.)

Ég kem upp til að tjá mig um orð hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur en áður en ég geri það vildi ég árétta þann skilning minn á niðurstöðunni í Evrópuráðinu að hún byggist á því að hryðjuverkalöggjöfin í Bretlandi veiti stjórnvöldum þar mjög víðtækar heimildir. Kannski er ein ályktunin eða einn lærdómur sem draga má af því fyrir lönd í Vestur-Evrópu hversu víðtækar heimildir finnist í svokallaðri hryðjuverkalöggjöf allra landa, m.a. Íslands.

Það var ekki það sem ég ætlaði að ræða um hér heldur orð hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur um trúnað í þingnefndum. Ég hygg að nú sé tækifæri, við endurskoðun þingskapalaga og vegna nýs frumvarps sem væntanlega lítur dagsins ljós á næstu dögum eða vikum, til að taka þetta í gegn. Ég held við verðum að hafa skýrar línur í því. Ég tek vissulega undir það með þingmanninum að að sjálfsögðu er það þingnefndin sem ákveður um trúnað og trúnaðarskyldur en ekki gestir hennar. En spurningin er hins vegar líka: Er ekki rétt að gera skýran greinarmun á lokuðum og opnum fundum og hafa t.d. alla fundi sem gestir mæta á, hverjir sem þeir eru, opna og aðra lokaða? Þetta er bara ein hugmynd sem mig langaði til að varpa fram í þessari umræðu til að reyna að koma því á framfæri. Af þessu tilefni vona ég að hv. þingmenn og við öll getum staðið saman um að breyta þingskapalögunum og bæta þau, það er full þörf á þeim umbótum. Ég minni í því sambandi á samþykkt okkar 63:0 frá því í haust.