139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

störf þingsins.

[14:14]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég tel fulla ástæðu til að ræða það sem snýr að Evrópuráðinu betur á þessum vettvangi. Ég vona að ég hafi misskilið hv. þm. Mörð Árnason í þessari stuttu ræðu sem hann hélt. Ég vona að enginn sé að tala gegn því að við gætum hagsmuna Íslendinga. Við höfum svo sannarlega lært það í þessum deilum okkar og viðskiptastríði að stóru þjóðirnar skirrast ekki við að gæta hagsmuna sinna. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur að vel má vera að þeim sé heimilt að beita hryðjuverkalögum gegn saklausri þjóð. Það kennir okkur að þegar menn leggja af stað með löggjöf, og þarf ekki að vera hryðjuverkalöggjöf, þá er hægt að beita henni öðruvísi en ætlað er í upphafi. Ég held að menn ættu að hafa það í huga að í þessum sal.

Ég tek undir með hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur þegar hún talaði um trúnað í nefndum og ég held að við þurfum ekki að breyta neinu. Ég held að það snúist um það hvernig við stýrum málum okkar á Alþingi Íslendinga. Ég hef aldrei heyrt þessar röksemdir áður og hef verið í mörgum þingnefndum. Ég hef aldrei heyrt þessa túlkun sem kom frá embættismanni í Seðlabankanum sem sagði okkur hreint og beint að hann gæti ekki sagt okkur neitt um það hvað væri í gangi. Við gætum sem sé ekki sinnt eftirlitshlutverki okkar vegna þess að lögfræðingur í Seðlabankanum hefði farið yfir málin og niðurstaða hans væri sú að það væri bara trúnaður í hv. utanríkismálanefnd.

Virðulegi forseti. Er það túlkun þingmanna að þeir geti ekki gætt trúnaðar í annarri nefnd en í hv. utanríkismálanefnd? Við þekkjum það í hinum ýmsu nefndum, t.d. í hv. allsherjarnefnd þegar menn ræða mjög viðkvæm málefni, að þá gæta menn að sjálfsögðu trúnaðar ef svo ber undir. Við eigum ekki að sætta okkur við þetta því ef við gerum það þá erum við að segja að við getum ekki (Forseti hringir.) sinnt lögbundnu eftirlitshlutverki okkar. Það er svo sannarlega þörf á því í því máli sem um ræðir (Forseti hringir.) sem er söluferli Sjóvár. Og það á við um mörg fleiri mál.