139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

störf þingsins.

[14:23]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Eins og allir hér vita er verkefni Alþingis og þingnefnda að veita framkvæmdarvaldinu og undirstofnunum þess aðhald. Það er óskaplega erfitt fyrir okkur þingmenn að veita slíkt aðhald þegar við fáum engar upplýsingar. Embættismenn ríkisins mæta fyrir þingnefndir og bera fyrir sig þagnarskyldu þegar þeir eru spurðir út í mikilvæg atriði, eins og t.d. einkavæðingu ríkisfyrirtækja.

Nú er verið að einkavæða tryggingafélagið Sjóvá. Eins og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir nefndi hélt viðskiptanefnd fund um það mál á föstudaginn. Þangað mætti seðlabankastjórinn Már Guðmundsson og kaus að veita nefndinni svo gott sem engar upplýsingar um það söluferli. Hann veitti ekki upplýsingar um það hvers vegna kaupin á félaginu hefðu farið út um þúfur fyrir skemmstu, hvers vegna þeir aðilar sem buðu 80% hærra verð í félagið en aðrir buðu hefðu hætt við kaupin. Hann bar fyrir sig þagnarskyldu og þagnarskylduákvæðum seðlabankalaganna þrátt fyrir að vitað sé að eignaumsýslufélag Seðlabankans, sem er einkahlutafélag sem ekkert er minnst á í seðlabankalögunum, fari með þessa sölu.

Ég tel að málið hafi fyrst orðið grafalvarlegt þegar seðlabankastjóri og lögfræðingur Seðlabankans vísuðu þingnefndinni til dómstóla til þess að fá þær upplýsingar sem hún þarf að fá til að geta sinnt skyldum sínum í svona mikilvægu máli sem varðar mjög mikla hagsmuni.

Nú liggur fyrir að aðrir aðilar en þeir upphaflegu hafa áhuga á að kaupa félagið í gegnum þessa einkavæðingu, (Forseti hringir.) fagfjárfestasjóður sem er að vísu kominn með kennitölu. Hann er reyndar ófjármagnaður og enn sem komið er fáum við sem sitjum í nefndinni engar upplýsingar um það hverjir það eru sem vilja (Forseti hringir.) standa að kaupunum eða hvað þeir ætla að greiða fyrir félagið. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Það verður að gera einhverja bragarbót á þessum vinnubrögðum.