139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

bréf forsætisráðherra til Ríkisendurskoðunar.

[14:34]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég tel mig knúinn til að vekja athygli þingsins á bréfi sem barst frá hæstv. forsætisráðherra til Alþingis og Ríkisendurskoðunar. Ástæðan er að forsætisnefnd þingsins fór eftir lögum um Ríkisendurskoðun og varð við beiðni um að senda ákveðið mál til Ríkisendurskoðunar til að fá skýrslu þar um. Var það mjög gegn vilja hæstv. forsætisráðherra, framkvæmdarvaldsins, sem sá sig núna knúna til að setja ofan í við hv. forsætisnefnd og senda leiðbeiningar til eftirlitsstofnunar Alþingis, Ríkisendurskoðunar, um það hvernig Ríkisendurskoðun ætti að vinna þetta mál. Lokaorðin eru svona, svo ég lesi beint, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að Ríkisendurskoðun endurskoði svar forsætisráðherra (Forseti hringir.) á sömu forsendum og það var undirbúið og veitt enda teljast þær forsendur málefnalegar.“

Virðulegi forseti. Ef við meinum eitthvað með því (Forseti hringir.) að tryggja aðskilnað og þrískiptingu ríkisvaldsins og tryggja stöðu Alþingis og eftirlitsstofnana þess getum við ekki hagað okkur með þessum hætti. Ég hvet stjórnarliða til að beina því til (Forseti hringir.) þess hæstv. forseta sem þeir bera ábyrgð á.