139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

skattstefna ríkisstjórnarinnar.

[14:58]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Hv. síðasti ræðumaður talaði um sókn. Ég held að það sé ekki sókn í átt til betri lífskjara í landinu vegna þess að skattstefna ríkisstjórnarinnar vinnur gegn því, vinnur beinlínis gegn því að íslenskt efnahags- og atvinnulíf nái sér á strik aftur. Skattbreytingarnar, skattahækkanirnar draga úr möguleikum okkar til að ná okkur aftur á strik. Það væri of langt mál á tveim mínútum að fara yfir allar þær skattahækkanir. Hv. formaður Framsóknarflokksins hefur gert nokkrar tilraunir til þess að drepa á helstu atriði í því sambandi og mun sennilega ekki nægja þær þrjár ræður sem hann ætlar sér í þessari umræðu. Það getum við farið yfir síðar.

Það sem liggur hins vegar fyrir er að núverandi ríkisstjórn hefur hækkað alla meginskatta í landinu, líka alla sérskatta eða svo til alla. Ég hef a.m.k. ekki fundið neitt dæmi um skatt sem þessi ríkisstjórn hefur ekki hækkað, ég hef ekki fundið neitt dæmi um það. Það er enginn skattur svo lítill og ómerkilegur … (Gripið fram í: … lægra þrep á virðisaukaskatti.) Lægra þrep á virðisaukaskatti — á móti voru vörur færðar í efri flokk sem áður voru í lægra þrepi og hærra þrepið hækkað fyrir utan auðvitað hækkanir á vörugjöldum sem hæstv. fjármálaráðherra man ábyggilega eftir. Ég ætla ekki að fara nánar í þetta en það er gott að hæstv. fjármálaráðherra finnst allt ganga samkvæmt plani, allt samkvæmt áætlun og allt ganga bara ljómandi vel. Ég deili ekki þeirri skoðun en við getum rætt það nánar síðar.

Ég verð hins vegar, vegna þess að hæstv. ráðherra vitnaði sérstaklega til nýútkominnar skýrslu frá Þjóðmálastofnun, að taka tvennt fram, sem reyndar kemur fram ef maður les fréttatilkynningu frá þeirri ágætu stofnun Stefáns Ólafssonar og félaga, og það er að viðmiðunarárið þar er 2009. Á árinu 2009 var ríkisstjórnin rétt byrjuð á þeirri (Forseti hringir.) skattahækkunarleið sem hún hefur farið síðan. Stóru skattahækkanirnar komu (Forseti hringir.) í gildi árið 2010. Hitt er svo annað mál að óbeinu (Forseti hringir.) skattarnir eru heldur ekki hafðir með og þeir hafa hækkað verulega.