139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

Landeyjahöfn og siglingar Herjólfs.

[15:14]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson kemur víða við, bryddar upp á ýmsum spurningum og vísar í vangaveltur fyrr og nú, m.a. um skort á pólitískri forustu í þessu máli. Þótt innanríkisráðuneytið sé til ýmissa hluta megnugt tekur það varla forustu gegn náttúruöflunum. Við höfum átt við slíkar aðstæður þar sem Landeyjahöfn er annars vegar.

Hvernig var staðið að því að fresta kaupum á nýjum Herjólfi? er spurt. Því er til að svara að Siglingastofnun hafði það verkefni að bjóða út smíði á nýrri ferju til siglinga milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja. Boðið var út í eigin framkvæmd ríkisins og bárust tvö gild tilboð. Það hagstæðara var frá þýskri skipasmíðastöð og nam 28 milljónum evra. Komið var að undirskrift samnings þegar efnahagskerfið hrundi á Íslandi 2008 og var þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að hætta við smíðina. Ákveðið var að nota Herjólf með þeim annmörkum að frátafir yrðu meiri en stefnt var að með nýju skipi.

Spurt er: Hvað máttu menn vita um afleiðingar þess að nota gamla Herjólf? Því er til að svara að ný Vestmannaeyjaferja átti að rista 3,3 metra en Herjólfur ristir 4,3 metra. Þegar ákvörðun var tekin um að nota núverandi Herjólf lá ljóst fyrir að það mundi takmarka nýtingu hafnarinnar, sérstaklega yfir vetrartímann. Fyrir utan Landeyjahöfn liggur rif sem hugsanlega gæti orðið til trafala en dýpið niður á það getur verið breytilegt. Það hefur þó verið metið svo að dýpið niður á rifið yrði það mikið á næstu 3–5 árum, eftir að höfnin yrði tekin í notkun, að það yrði lítið til vandræða. Þegar ákvörðun var tekin um að fresta kaupum á nýrri ferju gerðu menn sér vonir um að frátafir yrðu helst vegna of mikillar ölduhæðar þótt ljóst væri að þær yrðu meiri en með nýrri ferju.

Við gosið í Eyjafjallajökli jókst framburður verulega í Markarfljóti. Með austlægum ölduáttum fluttist framburðurinn vestur eftir og hluti af honum settist fyrir framan hafnarmynni Landeyjahafnar og hefur valdið þeim erfiðleikum sem flestir kannast við. Þótt fenginn hefði verið nýr Herjólfur hefði það ekki leyst allan vanda. Höfnin hefði engu að síður lokast töluvert. Nú hillir hins vegar að mati sérfræðinga Siglingastofnunar undir að höfnin verði meira opin, sandburður hefur dregist verulega saman í haust og síðustu vikur hefur hann verið óverulegur. Að mati sérfræðinga er útlit fyrir bjartari tíma.

Upphaflega var gert ráð fyrir takmörkuðum röskunum á áætlunum Herjólfs til 2013–2015 en þá var miðað við breytingar á dýpi niður á sandrifið sem hér hefur verið vísað til. Dýpið niður á það sandrif hefur ekki valdið vandræðum.

Spurt er: Hvenær verður tekin ákvörðun um nýjan Herjólf? Stýrihópur um byggingu Landeyjahafnar hefur lagt til að byggð verði ný ferja sem kæmi í gagnið 2013–2014. Ljóst er að til lengri tíma litið hlýtur ný ferja að vera sá kostur sem stefnt verður að. Í það verkefni eru þó engir peningar til eins og sakir standa og ekki fyrirsjáanlegt hvenær það verður. Undirbúningur undir kaup á nýrri ferju hlýtur að taka mið af því.

Verður áætlun vetrarferða breytt á meðan gamli Herjólfur siglir? Er ekki Þorlákshöfn varahöfn? er spurt. Vetraráætlun Herjólfs hefur verið aðlöguð þannig að metið er í hvert skipti hvort fært sé í Landeyjahöfn. Sé svo ekki er siglt til Þorlákshafnar. Þorlákshöfn er varahöfn fyrir Herjólf. Þegar Landeyjahöfn er opin eru farnar fjórar ferðir á dag yfir vetrartímann en fjórar til fimm ferðir á dag yfir sumartímann og upp í sex til sjö ferðir á sólarhring um þjóðhátíð og aðra stórviðburði í Eyjum. Til að minnka frátafir út frá rekstrarlegum sjónarmiðum hefur síðustu ferð, þ.e. fjórðu ferð, í Landeyjahöfn verið flýtt yfir mesta myrkurtímabilið þannig að siglt er sem mest í björtu á meðan betri reynsla er að komast á höfnina.

Hvað hefur verið gert til að auka ferðatíðni og minnka frátafir? Auk þess sem sagt hefur verið hefur sanddæluskip verið til reiðu til dýpkunar í Landeyjahöfn frá því í haust. Í haust var boðin út viðhaldsdýpkun þar sem leitað var eftir að fá dýpkunarskip sem hentað gæti betur til dýpkunar en þau skip sem fyrir eru í landinu. Það dýpkunarskip er væntanlegt á næstu dögum, reyndar lagt af stað, Skandia mun það heita. Þess er að vænta til landsins innan viku, (Forseti hringir.) að því er mér er sagt.

Ég á ósvarað einni spurningu (Forseti hringir.) og mun gera það í síðari ræðutíma.