139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

Landeyjahöfn og siglingar Herjólfs.

[15:31]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það var eftirminnilegt á nýliðnu ári að á einum og sama ársfjórðungnum sáum við koma í gagnið miklar samgöngubætur á Suðurlandi sem lengi hafði verið unnið að og voru loksins komnar til framkvæmda sem var nýr vegur, Gjábakkavegur, brú yfir Hvítá, Landeyjahöfnin, útboð á seinni áfanga Suðurstrandarvegar og útboð á tvöföldun í áfanga á Suðurlandsvegi. Þetta eru náttúrlega gífurlega mikilvægir áfangar í samgöngubótum fyrir þetta svæði og landið allt þegar svo er talið.

Um höfnina ríkja náttúrlega aðrar aðstæður en um vegina. Þar er alltaf um að ræða ákveðna óvissu. Óvissa um notkun á höfninni og framtíð hennar er auðvitað óþægileg fyrir íbúana. Þess vegna skiptir sú umræða miklu sem fram fer í þingsal í dag. Þar kemur fram órofasamstaða þvert á alla stjórnmálaflokka og sama hver talar, að staðinn skuli vörður um höfnina, hnökrunum skuli eytt út með dýpkun og unninn verði bugur á frátöfum og síðast en ekki síst með því að hefja nú þegar undirbúning að smíði nýs skips sem hentar þar miklu betur.

Við þurfum að eyða allri óvissu um að ekki komi annað til álita en að halda höfninni opinni þó að til komi frátafir sem bætast ofan á það sem upphaflega var gert ráð fyrir og ráðin þannig bót á byrjunarörðugleikum með dýpkun og nýju skipi. Væntingarnar sem voru bundnar við þetta mikla samgöngumannvirki urðu strax að veruleika með þeirri miklu traffík sem varð á milli Vestmannaeyja og meginlandsins. Þegar við komum út til Eyja fyrstu vikurnar og mánuðina eftir opnun sáum við hvernig lifnaði yfir verslun, þjónustu og mannlífi við að ferðir þangað út væru ekki bundnar við eina helgi, tvær eða þrjár heldur væri stöðug umferð á milli af ferðafólki, Íslendingum og útlendingum, sem kæmi til að heimsækja Eyjarnar. (Forseti hringir.) Þess vegna fagna ég þeirri umræðu sem fram fer í dag og hvet aftur hæstv. ráðherra til að skipa stýrihópinn nú þegar um smíði nýs Herjólfs.