139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

Landeyjahöfn og siglingar Herjólfs.

[15:36]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka ágæta umræðu sem hefur að mestu leyti fjallað um Landeyjahöfn samanber yfirskrift þessarar utandagskrárumræðu að undanteknu hliðarspori hv. þm. Jóns Gunnarssonar sem tók upp umræðu um vegtolla eins og það væru smámunir að verja á næstu fimm árum 40 milljörðum til samgöngubóta sunnan og vestan lands. Hér er um að ræða flýtiaðgerðir í vegamálum, ef til kæmu, sem við yrðum að innheimta gjald fyrir, en það er önnur Ella. Við vorum að skera niður rúma 3 milljarða í heilbrigðiskerfinu og þótti mörgum nóg um. Við erum því að tala um umtalsverða fjármuni.

Staðreyndin er sú að þrátt fyrir erfitt haust að mörgu leyti er það svo að Landeyjahöfn hefur ekki lokast með tilliti til dýpis frá seinni hluta nóvember og fram í miðjan janúar. Síðan þá hefur höfnin verið lokuð. Það er vegna þess að sanddæluskip sem eru hér á landi hafa ekki getað dýpkað vegna veðurs. Nú er að koma nýtt skip sem vonandi ræður við verkefnið.

Umræða um Landeyjahöfn hefur einkennst talsvert af úrtölum og bölmóði sem hefur ekki skilað sér inn í þennan sal sem betur fer vegna þess að frá því ætlum við ekki að hvika að halda Landeyjahöfn opinni og leita allra leiða til þess, það er grundvallaratriði. Ég er sammála hv. þm. Árna Johnsen að þetta krefst blöndu af þolinmæði til að við vinnum okkur út úr vandanum og sjáum hvernig við getum tekist á við verkefnið, þolinmæði og festu, sagði hann. (Forseti hringir.) Þá er krafa um að settur verði upp rýnihópur og undirbúningshópur eins og hv. þm. Atli Gíslason, málshefjandi, og fleiri hafa vakið máls á. (Forseti hringir.) Það hefur verið gert áður og ég tek þessar ábendingar að sjálfsögðu til greina og mun skoða þær.