139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

385. mál
[16:04]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Hann fullyrðir að fyrr sé ekki náð þessari hagræðingu en eftir sameiningu stofnananna. Ég er algjörlega ósammála því. Ég tek undir það sem hæstv. ráðherra sagði í ræðu sinni að hagræðingin væri oft ofmetin, þ.e. ábatinn af hagræðingunni, og menn þyrftu að skoða það.

Ég hef því miður séð á stuttum þingferli mínum afskaplega mörg mál unnin þannig að menn gefa sér einhverjar forsendur sem ekkert innihald er fyrir. Oft og tíðum þegar maður les umsagnirnar og markmiðin með frumvörpunum er einhvern veginn fyrir séð að ekki er nógu sterkur grunnur á bak við þau og ég skildi orð hæstv. ráðherra áðan þannig.

Til að rifja það upp af því að við erum að ræða þessar tvær stofnanir af þeim sem hér eru undir, annars vegar Vegagerðina og hins vegar Siglingastofnun, var niðurskurðurinn t.d. í hafnarframkvæmdum, ef ég man rétt, um 67% á milli ára. Ég spurði efnislega þessarar spurningar í fjárlaganefnd: Getur verið — ég geri mér fulla grein fyrir því að sum verkefni sem fylgja þessum framkvæmdum eru unnin fyrir utan stofnunina — að það sé verið að hlífa yfirstjórninni? Það er því miður gert í allt of ríkum mæli að mínu mati. Það er nefnilega ekki eins og hæstv. ráðherra rakti hér varðandi forstjórana og þá sem stýra, yfirtoppana eins og hann kallaði þá, þeir eru nefnilega ekkert skornir niður.

Mig langar þá að spyrja hæstv. ráðherra: Telur hann eðlilegt að frá því 2008 hafi verið fækkað um tvö stöðugildi í yfirstjórn Vegagerðarinnar? Ég hef spurt að því líka á fundum nefndarinnar: Er eðlilegt t.d. að reka vegaeftirlitsmanninn, sem búið er að segja upp og er annað þessara stöðugilda, en hafa upplýsingafulltrúa hjá Vegagerðinni til að segja landsmönnum að það eigi ekki að framkvæma neitt í vegagerð? (Forseti hringir.) Þannig eru vinnubrögðin og hafa verið hingað til.