139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

385. mál
[16:20]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins út af gjaldheimtunni, sem hæstv. ráðherra fór að tala um, þá stendur orðrétt í frumvarpinu og ég veit ekki hvernig ég á að skilja það öðruvísi, með leyfi forseta:

„Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Farsýslunni verði heimilt að innheimta ný gjöld vegna eftirlits með skoðun ökutækja og starfsleyfum skoðunarstöðva. Áætlað er að tekjur stofnunarinnar af þessum gjöldum verði um 5 millj. kr. og að þær komi fram á tekjuhlið ríkissjóðs. Einnig er lögð til hækkun á umferðaröryggisgjaldi úr 400 kr. í 500 kr. en það gæti aukið tekjur um nálægt 28 millj. kr. Að lokum er gert ráð fyrir hækkun á gjaldskrá vegna útgáfu lofthæfisskírteina …“

Í frumvarpinu er í fyrsta lagi heimild til að innheimta ný gjöld og því til viðbótar eru hækkanir á gjaldskrá tilgreindar í þeim liðum. Ég þykist enn þá vera læs en ég get ekki skilið þetta öðruvísi en að hér sé hvort tveggja verið að leggja á ný gjöld og hækka önnur sem voru fyrir. Svo geta menn rætt endalaust hvort þeir vilji vísa til þess að þeir hafi ekki hækkað gjöldin síðan 2006 eða síðan hvenær og það sé eðlileg gjaldskrárhækkun, eins og hæstv. ráðherra kom inn á í ræðu sinni áðan, að 400 kr. sem voru 2006 séu komnar upp í 490 kr. núna ef tekið er tillit til hækkunar vísitölu og þess vegna sé gjaldið hækkað. Þetta liggur alveg klárt og kvitt fyrir. Ég hefði talið að ekki þyrfti að deila eða hafa sterk skoðanaskipti um þann texta sem klárlega stendur í frumvarpinu. Ég get ekki skilið þetta öðruvísi. Ég held að menn verði að ræða hlutina eins og þeir eru nákvæmlega en fara ekki eftir einhverjum öðrum leiðum sem þeim þóknast hugsanlega hverju sinni.