139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

Vegagerðin, framkvæmdastofnun samgöngumála.

386. mál
[16:35]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Hæstv. innanríkisráðherra leggur gjörva hönd á margt og hvarvetna góða. Mér finnst nú ekki hægt að hæstv. ráðherra mæli fyrir svona tímamótamáli, sem ég tel vera, án þess að komi að minnsta kosti einn þingmanna í ræðustól til að þakka honum fyrir þetta mál. Ég veit að hann hefur unnið vel að þessu og líka forveri hans, hv. þm. Kristján L. Möller. Ég tel að þetta mál horfi mjög til bóta. Mér finnst að þetta sé í samræmi við þann yfirlýsta vilja ríkisstjórnarinnar að reyna að hagræða og straumlínulaga stofnanir ríkisins. Ég tel að sú breyting sem hér er gerð, eins og hæstv. ráðherra rakti áðan, horfi að öllu leyti til bóta. Hún muni styrkja Vegagerðina sem er lykilstofnun í íslenskum samgöngumálum og í stofnanaflóru íslensku ríkisstjórnarinnar. Ég tek einnig undir margt af því sem hæstv. ráðherra sagði eins og að leggja niður hin og þessi ráð og skapa í staðinn heimild til að setja upp fagráð í einstöku máli. Ég tel að það sé miklu lipurra og miklu betra.

Ég ætla nú ekki að ræða þetta mál neitt ítarlega. Ég vildi bara þakka hæstv. ráðherra fyrir það að láta ekki staðar numið þar sem forveri hans hóf verk og hafa hrundið því fram núna af mikilli og velþekktri atorku. Fyrir það vil ég þakka hæstv. ráðherra, eins og hann veit af því að ég hef þegar rætt og samþykkt málið í ríkisstjórn og því þarf hann ekki að efast um minn góða stuðning í því fremur en öðru sem hann tekur sér fyrir hendur.

Af því hæstv. fyrrverandi samgönguráðherra gengur nú í salinn vil ég bara endurtaka það sem ég sagði hér áðan, að ég var að þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir að hafa af mikilli atorku gengið í þetta mál og tekið þar upp þráðinn og hnýtt saman þar sem sundur slitnaði þegar núverandi hv. þm. Kristján L. Möller hvarf úr því ráðuneyti eftir að hafa unnið þar mjög mörg góð verk.