139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála.

407. mál
[16:39]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um brottfall laga um flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála nr. 31/1987, með síðari breytingum.

Með frumvarpi þessu eru felld úr gildi lög um flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála, en í þeim lögum eru settir fram tveir skattstofnar, þ.e. flugvallaskattur og varaflugvallagjald. Með niðurfellingunni er markvisst verið að hverfa frá skatttöku yfir í gjaldtöku sem leiðir af kostnaði við þjónustuna þannig að notandinn greiði í samræmi við kostnað í ríkari mæli en nú er.

Í apríl 2008 skipaði samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra starfshóp sem ætlað var að endurskoða gjaldtöku flugvalla og gera tillögur um tilhögun á tekjuöflun til flugvalla þannig að þeir starfi í eðlilegu viðskiptaumhverfi og í fullu samræmi við alþjóðareglur þar að lútandi. Hópurinn var sammála um að það fyrirkomulag tekjuöflunar á flugvöllum að blanda saman nefsköttum á farþega, beinum greiðslum úr ríkissjóði og þjónustugjöldum samkvæmt gjaldskrá hafi reynst ógagnsætt og lítt til þess fallið að efla kostnaðarvitund þeirra sem greiða fyrir þjónustuna, hvort heldur væru flugrekendur eða ríkissjóður. Hópurinn lagði því til að skattar af farþegum yrðu afnumdir og að þjónustugjöld yrðu tekin upp þess í stað. Flugvallaskattur og varaflugvallagjald hafa verið markaðar tekjur til framkvæmda í flugmálum, reksturs flugvalla, rannsókna, sérstakra tímabundinna verkefna í flugöryggismálum og kostnaðar vegna reksturs og viðhalds alþjóðlegra varaflugvalla á Íslandi.

Isavia ohf., sem sér um rekstur flugvalla á Íslandi, hefur fengið hinar mörkuðu tekjur í gegnum þjónustusamning sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið gerir árlega við fyrirtækið, nú innanríkisráðuneytið eins og kunnugt er. Með því að fella niður fyrrgreinda skattstofna mun gjaldskrá fyrirtækisins hækka sem þeim nemur. Þjónustusamningur fyrirtækisins og ráðuneytisins mun að sama skapi lækka og staða ríkissjóðs verða óbreytt. Staða farþega og flugrekenda mun einnig verða óbreytt þar sem í stað nefskatta sem greiddir eru ríkissjóði eru greidd þjónustugjöld til Isavia ohf.

Eftirlitsstofnun EFTA hefur einnig gert athugasemdir við varaflugvallagjaldið þar sem stofnunin heldur því fram að gjaldið standist ekki kröfur EES-samningsins um jafnræði og að hugsanlega séu ríkisstyrkjareglur brotnar þar sem varaflugvallagjaldið er ekki tekið af vöruflutningum.

Íslenska ríkið hefur fallist á sjónarmið stofnunarinnar og eru afskipti ESA ein af ástæðum þess að fyrrgreindur starfshópur um fjármögnun flugvalla var skipaður. Er því mikilvægt að varaflugvallagjaldið verði afnumið til að alþjóðlegar skuldbindingar ríkisins séu uppfylltar.

Breytingar á formi gjaldtöku flugvalla eru þegar hafnar en samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra lagði fram vorin 2009 og 2010 frumvörp til breytinga á lögum um loftferðir, nr. 60/1998. Frumvörpin lögðu til grundvallarbreytingar á fyrirkomulagi gjaldtökunnar og var meðal annars lögð til lagastoð í 71. gr. laganna fyrir flugvöllinn til að fjármagna sig með þjónustugjöldum sem byggð væru á kostnaðargrunni. Frumvörpin urðu annars vegar að lögum nr. 15/2009 og hins vegar lögum nr. 87/2010.

Í 1. mgr. 71. gr. loftferðalaga er lögð sú skylda á rekstraraðila flugvalla þar sem farþegar eru fleiri en ein milljón á ári líkt og á við um Keflavíkurflugvöll, að hann setji á stofn notendanefnd sem sé vettvangur skoðanaskipta milli rekstraraðilans og notanda um málefni flugvallar, en markmiðið með þessu fyrirkomulagi er að auka gagnsæi í rekstri og gjaldtöku á flugvöllum.

Tekið skal fram að notendur í skilningi ákvæðisins eru þeir sem stunda flutning í lofti á farþegum, pósti og/eða farmi til eða frá viðkomandi flugvelli. Hefur notendanefnd Keflavíkurflugvallar nú þegar verið sett á stofn og mun Isavia ohf. því fara með gjaldskrárbreytingar þær sem leiða af frumvarpi þessu fyrir nefndina og munu notendur hafa tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri.

Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni umræðu vísað til 2. umr. og hv. samgöngunefndar Alþingis.