139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála.

407. mál
[16:51]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Ásbirni Óttarssyni að mér rennur blóðið til skyldunnar þegar annars vegar eru fjarlægustu og fámennustu byggðarlög landsins. Ég hef mörgum sinnum tekið upp málstað þeirra gagnvart ýmiss konar aðgerðum af hálfu stjórnvalda og tel að menn þurfi að hugsa alveg sérstaklega um það mál.

Af þeim þremur sem hafa nú talað í þessari umræðu, þ.e. mér, hæstv. ráðherra og hv. þingmanni, hygg ég að hæstv. innanríkisráðherra sé sá sem minnsta ábyrgð beri á því máli sem hv. þingmaður deilir á. Ástæðan er eftirfarandi:

Hæstv. ráðherra rakti það mjög skilmerkilega í framsögu sinni að hér væri um að ræða breytingu sem hann yrði að gangast undir fyrir hönd ríkisins. Ástæðan er sú að ESA hefur gefið út úrskurð um að tiltekin framkvæmd sem áður var við lýði stangaðist á við reglur um Evrópska efnahagssvæðið. Hæstv. innanríkisráðherra er einn af örfáum mönnum í þessum sölum sem hefur lýst yfir vantrú á Evrópska efnahagssvæðið. Hann hefur mörgum sinnum sagt frá því hér og við höfum háð marga hildi, við hæstv. ráðherra, m.a.s. sem samherjar í stjórnarandstöðu, um gildi Evrópska efnahagssvæðisins. Hæstv. ráðherra vildi fara aðra leið, hina svissnesku leið tvíhliða samninga, hugsanlega með það fyrir augum að þá hefði hann getað náð sérstökum samningum um hin fjarlægari og fámennari byggðarlög. Ekki skal ég um það segja. Hitt veit ég að það voru minn flokkur og flokkur hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar sem börðust fyrir og fengu samþykki Alþingis fyrir þeim samningi. Hæstv. núverandi innanríkisráðherra vildi á þeim tíma fara aðra leið vegna þeirrar samþykktar, hann vildi setja hann í þjóðaratkvæðagreiðslu sem margir voru andsnúnir þá og ekki var gert.

Í öllu falli er ég sammála hv. þm. Ásbirni Óttarssyni um að það sé a.m.k. einnar messu virði að skoða út í hörgul hvaða áhrif þetta hefur á t.d. það tiltekna byggðarlag sem ég held að sé fámennasta byggðarlagið í landinu og er mjög fjarlægt.

Ég er ekki algjörlega viss um það eftir síðustu ræðu hæstv. innanríkisráðherra að í reynd sé mjög mikill munur í upphæðum talið á því að beita notendagjöldum annars vegar og hins vegar því sem hv. þingmaður kallar nefskatt. Ég er þó viss um að hv. þingmaður, sem er glöggur og gerhugull og vandvirkur eins og sést á því að hann tekur þátt hér í umræðum um þetta, muni láta skoða það í nefndinni. Ég er þeirrar skoðunar að réttlætiskennd bæði hæstv. ráðherra og ríkisstjórnar en þó sérstaklega þeirra þingmanna sem sitja í samgöngunefnd sé slík að ef í ljós kemur að þar er mikill munur sé hægt að skoða einhverjar leiðir til jöfnunar. Slíkar leiðir eru nú þegar til í þeim farvegi sem ríkið hefur notað um flugsamgöngur.

Þetta vildi ég segja til að bera hönd fyrir höfuð hæstv. innanríkisráðherra því að ég tel að hann sé allra manna sem sitja á þinginu saklausastur gagnvart þessari tilteknu framkvæmd.

Hv. þingmaður tók eftir því að ég lýsti líka fögnuði mínum áðan yfir hinni endurgerðu og styrktu Vegagerð. Það er ekki síst vegna þess að ég hef margsinnis komið í ræðustól og rætt m.a. um nauðsyn þess að gera átak í vegamálum Árneshrepps. Hv. þingmaður veit að ég hef t.d. ekki alltaf verið ánægður með snjómokstur í þeirri sveit og hef ég þó ekki til nokkurra tengsla að telja þar. Hv. þingmaður veit líka að ég hef verið mikill áhugamaður um að menn byggi upp Veiðileysuháls. Ég tel að hæstv. innanríkisráðherra eigi með sterkari vegagerð miklu auðveldara með að beita sér og sínum stofnunum til að hrinda í framkvæmd þeim samgöngubótum. Hins vegar skal ég svo fyrstur manna verða til þess að fagna því þegar hv. þingmaður er búinn að láta skoða þetta í nefnd ef nefndin kemur með tillögur til úrbóta á hugsanlegum annmörkum á þessu. Ég legg áherslu á orðið hugsanlegum vegna þess að ég er ekki algjörlega viss um að hv. þingmaður hafi rétt fyrir sér í þessu máli þó að hann hafi að vísu þá náðargáfu að mér finnst hann jafnan hafa rétt að mæla þegar hann talar.